Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Þjófar gripnir með og á þýfi

Mynd með færslu
 Mynd: Eggert Þór Jónsson - RÚV
Þrír menn voru handteknir í Hafnarfirði í nótt vegna innbrots og þjófnaðar. Í tilkynningu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu segir að hald hafi verið lagt á töluvert mikið þýfi sem fannst í fórum þremenninganna. Allir voru þjófarnir vistaðir í fangaklefum lögreglu vegna málsins. Þá voru tveir þjófar aðrir handteknir og færðir í fangaklefa eftir að þeir voru stöðvaðir af lögreglu í Kópavogi, þar sem þeir voru á ferðinni á feng sínum, stolinni bifreið.

 

Loks var maður nokkur, sem sagður er hafa verið í mjög annarlegu ástandi, handtekinn í Kópavogi eftir að hafa reynt að ræna fjármunum af manni þar í bæ. Notaði hann skæri til að ógna brotaþola en sá náði að forða sér á hlaupum og hringja í lögreglu.

Alls voru 90 mál skráð í bækur lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu frá klukkan 17.00 í gær til klukkan fimm í morgun.

 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV