Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Maðurinn með hornin handtekinn og kærður

09.01.2021 - 18:19
epaselect epa08923457 Supporters of US President Donald J. Trump stand by the door to the Senate chambers after they breached the US Capitol security in Washington, DC, USA, 06 January 2021. Protesters stormed the US Capitol where the Electoral College vote certification for President-elect Joe Biden took place.  EPA-EFE/JIM LO SCALZO
 Mynd: Jim Lo Scalzo - EPA
Jake Angeli, sem var með horn á höfði og bjarnarloðfeld þegar hann fór fyrir æstum múg við þinghúsið í Washington, hefur verið handtekinn og úrskurðaður í gæsluvarðhald. Þetta kemur fram í tilkynningu frá bandaríska dómsmálaráðuneytinu. Adam Johnson, maðurinn sem sást á ljósmyndum bera út ræðupúlt Nancy Pelosi, leiðtoga Demókrata í fulltrúadeildinni, hefur verið í haldi lögreglu síðan í gær.

Lögreglan hefur við rannsókn á uppþotinu stuðst við ljósmyndir sem teknar voru þegar múgurinn réðst inn í þinghúsið og lét þar öllum illum látum.  Fimm létust, þar af einn lögreglumaður.

Angeli og Johnson voru nokkuð auðþekkjanlegir; Angeli ber að ofan, málaður í framan og með horn og bjarnarloðfeld á höfðinu. Johnson er síðan heldur kindarlegur á svipinn þegar hann sést með ræðupúlt Pelosi á öxlinni.

Angeli hefur kallað sjálfan sig QAmon-Sjamaninn en QAnon er hreyfing sem nærist á  allskyns samsæriskenningum. Fylgismenn hennar hafa verið áberandi í hópi stuðningsmanna Donalds Trump.

Bæði Johnson og Angeli hafa verið kærðir fyrir sinn þátt í óeirðunum. Þær hafa orðið til þess að Donald Trump hefur nú verið bannaður frá bæði Facebook og Twitter. Leiðtogar Demókrata hafa lýst því yfir að bregðist Repúblikanar ekki við muni þeir kæra forsetann til embættismissi.