Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Elísabet og Filippus bólusett við kórónuveirunni

epa05314519 Britain's Queen Elizabeth II (L) sits beside her husband Prince Philip, Duke of Edinburgh as she reads the Queen's Speech from the throne during the State Opening of Parliament at the House of Lords in London, Britain, 18 May 2016.
 Mynd: EPA
Elísabet Englandsdrottning og Filippus prins voru bólusett við kórónuveirunni í dag og eru þar með komin í hóp um einnar og hálfrar milljónar Breta sem hafa þegið fyrri bólusetninguna. 

Í tilkynningu frá Buckingham-höll segir að hin konunglegu hjón, sem eru 94 og 99 ára og tilheyra sökum aldurs síns forgangshópi í bólusetningar, hafi verið bólusett af einkalækni sínum í Windsor-kastala þar sem þau hafa haldið til í faraldrinum. 

Það þykir sæta nokkrum tíðindum að þetta hafi verið opinberað, en drottningin gefur að öllu jöfnu ekki upplýsingar um heilsufar sitt.

Þrjár milljónir Breta hafa nú greinst með kórónuveirusmit og tæplega 81.000 hafa látist úr COVID-19, sem er einn mesti fjöldi dauðsfalla í Evrópulandi. Spítalar eru komnir að þolmörkum, sóttvarnaaðgerðirnar eru með þeim hörðustu sem um getur og Bretar eru hvattir til að halda sig heima við.