Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Segja Ólympíuleikana á áætlun þrátt fyrir fjölgun smita

epa08853905 People look at the reinstallation of an Olympic rings monument at the waterfront of Odaiba Marine Park, in Tokyo, Japan, 01 December 2020. The Olympic rings monument has been reinstalled to its original location after maintenance work. The Tokyo 2020 Olympic Games have been rescheduled to 23 July 2021, due to the coronavirus pandemic.  EPA-EFE/FRANCK ROBICHON
 Mynd: EPA

Segja Ólympíuleikana á áætlun þrátt fyrir fjölgun smita

07.01.2021 - 13:17
Skipuleggjendur Ólympíuleikanna í Tókýó segja leikana enn á áætlun. Þannig standi málin jafnvel þó svo að COVID-19 smituðum fari fjölgandi í japönsku höfuðborginni. Leikarnir áttu upphaflega að vera í fyrra en var frestað til ársins í ár vegna heimsfaraldursins. Þeir eiga að hefjast 23. júlí og standa til 8. ágúst.

Alls greindust 2.447 smitaðir af kórónuveirunni í Tókýó í dag, samkvæmt opinberum tölum. Það er það mesta sem verið hefur í langan tíma og aðgerðir þar í borg hafa því verið hertar. Meðal annars fela þær aðgerðir í sér að veitingastöðum er bannað að selja áfenga drykki eftir klukkan 19 á kvöldin.

Skipuleggjendur leikanna segja þó að leikarnir fari fram. „Þessar neyðarráðstafanir sem nú eru í gangi hjá okkur gefa okkur um leið tækifæri til að gera enn betra öryggisplan fyrir Ólympíuleikana í sumar,“ segja skipuleggjendur meðal annars.

Í yfirlýsingu frá IOC, Alþjóða Ólympíunefndinni segir að IOC beri fullt traust til japanskra yfirvalda. „Saman munum horfa björtum augum til framtíðar og vera áfram einbeitt að tryggja vel heppnaða og örugga Ólympíuleika og Ólympíumót fatlaðra í Tókýó í sumar,“ segir meðal annars í yfirlýsingu IOC. Innan við 200 dagar eru þar til leikarnir eiga að vera settir í Japan.

Thomas Bach forseti IOC hefur svo hvatt yfirvöld í öllum ríkjum heimsins til að setja íþróttafólkið sem mun hefur keppnisrétt á leikana í Tókýó á forgangslista í bólusetningu. Hann tók það þó fram að íþróttafólkið ætti að sjálfsögðu ekki að ryðjast fram fyrir, framlínufólk, aldraða og þá sem hefðu undirliggjandi sjúkdóma. En hvatti engu að síður yfirvöld ríkja til að muna eftir íþróttafólkinu.