„Ég var að kveðja þetta tímabil í lífi mínu“

Mynd: Una Sighvatsdóttir / Aðsent

„Ég var að kveðja þetta tímabil í lífi mínu“

07.01.2021 - 09:38

Höfundar

„Ég er ekki að segja að ég hafi grátið, en þetta var merkileg tilfinning,“ segir Una Sighvatsdóttir sem henti uppáhalds skónum sínum í ruslagám á síðasta ári eftir erfiða kveðjustund. Skórnir höfðu fylgt henni í sex mánaða ferðalagi um Suður-Ameríku og gerðu henni kleift að njóta nýfengna frelsisins og lenda í rómantískum aðstæðum í exótísku umhverfi.

Stundum geta heitar tilfinningar glætt dauða hluti lífi. Við ljáum þeim merkingu með því að tengja þá við staði, fólk og minningar og byrjum jafnvel að elska þá. Flest eigum við einhverja hluti sem við ímyndum okkur að við myndum leggja mikið á okkur til að bjarga, til dæmis í eldsvoða. Þetta eru gjafir frá fyrrum kærustum, gamlar ljósmyndir af ættmennum, föt sem tengjast ákveðnum atburðum, giftingarhringar. Una Sighvatsdóttir, sérfræðingur í upplýsingamálum, átti í slíku tilfinningasambandi við skó. Skópar sem fylgdi henni í ógleymanlegu ferðalagi um gjörvalla Suður-Ameríku. Hún segir söguna af skónum og ævintýrum sínum í Ástarsögum á Rás 1.

Leið eins og Köngulóarmanninum

Hún var á tímamótum í lífi sínu snemma árs 2018, hafði nýlokið störfum í Afganistan og vissi ekki hvað tæki næst við. Hún ákvað að taka sér pásu frá hversdagslegu amstri og halda ein í ferðalag til Suður-Ameríku án þess að ákveða hve lengi hún myndi dvelja eða nákvæmlega hvert hún færi. Hún var bara harðákveðin í að leyfa lífinu að teyma sig í kærkomið ævintýri.

Þegar kom að því að pakka í tösku áttaði hún sig á því að hún þyrfti létta skó sem myndu duga í göngur og hlaup en ekki þyngja farangurinn. Þá fann hún skóna örlagaríku. „Þeir voru ólíkir stóru ökklaháu stífu gönguskónum sem ég hef alltaf átt og gengið mikið í. Þessir skór voru grænir og með sterku góðu gripi. Mér leið eins og köngulóarmanninum þegar ég gekk í þeim,“ segir Una.

Mynd með færslu
 Mynd: Una Sighvatsdóttir - Aðsend
Una og skórnir í gönguferð í Chile.

„Gleðin og frelsið helltust yfir mig“

Ferðalagið hófst í Buenos Aires í Argentínu þar sem hún var í afslöppun hjá vinafólki. Næsti áfangastaður var Úrúgvæ þar sem hún vígði skóna með útihlaupi. Í starfi sínu í Kabúl í Afganistan sem upplýsingafulltrúi hjá Nató var hún að mestu lokuð innan múrveggja í herstöðinni sem hún vann í og því hafði hún mikla þörf til að hlaupa stefnulaust og njóta víðáttunnar.

„Ég lofaði sjálfri mér, sem hef aldrei verið mikil íþrótta- eða hlaupamanneskja, að ég skyldi taka að minnsta kosti eitt útihlaup í hverri borg sem ég heimsótti,“ segir Una. „Bara eitthvert. Beint af augum.“

Fékk hálfgert víðáttubrjálæði

Við komuna til Suður-Ameríku, með allt það frelsi og þá fegurð sem blasti við henni, fékk hún fyrst hálfgert víðáttubrjálæði. „Ég fór í borgarhlaup meðfram ströndinni í Montevídeó og það var geggjað. Ég man að ég upplifði svo mikla gleði og svo mikið frelsi. Það bara helltist alveg yfir mig.“

Eftir borgardvölina hélt hún til Patagóníu þar sem hún dvaldi í tæpan mánuð og stundaði útivist og göngur og heimsótti nýja staði nánast daglega. „Þetta var ein af mínum uppáhalds ferðaupplifunum allra tíma.“

„Þarna fór ég að bindast þeim tilfinningaböndum“

Fyrsta gangan var Torres del Paine í Chile þar sem hún hélt einsömul í fjögurra daga fjallgöngu og naut þess í botn. „Ég man að þetta var svo yndislega einfalt líf. Ég vissi nákvæmlega hvað ég átti og hvað ég var með og ég þurfti bara að pakka því í poka, smyrja nesti, reima á mig skóna og ganga af stað á morgnana. Ekkert framundan annað en að koma mér á næsta punkt.“

Skórnir komu sér þá afar vel og leiddu Unu í nýfengnu frelsi um fjöll og firnindi. „Ég fékk gæsahúð af frelsisvímu, þetta var svo sterk upplifun,“ segir hún. „Sennilega var það þarna á þessari göngu sem ég fer fyrst að bindast þessum skóm mjög miklum tilfinningaböndum. Þeir færðu mig um stað.“

Í sex mánuði var hún á flakki norður eftir álfunni og Una og skórnir héldu saman í margar göngur og lentu í óvæntum ævintýrum. „Ég gekk náttúrulega klassíska Machu Picchu og fór svo í aðra fimm daga göngu í Norður-Perú,“ rifjar Una upp. Í háfjallagöngu í Chile var hún í fyrsta skipti í yfir fjögur þúsund metra hæð og þá fékk hún háfjallaveiki. „Það var alls konar lífsreynsla.“

Besta útgáfan af sjálfri sér í skónum

Þó skórnir hafi stundum verið á mörkum þess að vera nógu sterkbyggðir og veita nægan stuðning lét Una það ekki á sig fá. Þetta voru skórnir sem skyldu fylgja henni allt ferðalagið. „Þeir einhvern veginn dugðu alltaf og það var mikil fullnægja fólgin í því að þurfa ekkert meira en það sem ég nákvæmlega hafði.“

Það er rómantískt að ferðast ein, samkvæmt Unu, en hún var líka opin fyrir því að kynnast fólki. Og á leið sinni kynntist hún allskonar fólki. „Að vera ein á ferðalagi leiðir mann nefnilega í alls konar skemmtilegar, skrýtnar, fyndnar og rómantískar aðstæður,“ segir hún.

Skórnir leiddu Unu á rómantískar slóðir. „Þegar ég var í þessum skóm var ég besta útgáfan af sjálfri mér. Ég var bæði á leið á staði sem mig langaði á og eflaust með mjög opin og sindrandi augu. Ég var spennt og glöð,“ segir hún.

Ungur maður birtist og fylgdi henni niður

Á sinni fyrstu göngu verður Una vör við að það lá brattur slóði út frá aðalgönguleiðinni sem vakti forvitni. Með skóna að vopni stóðst hún ekki mátið að feta slóðann og hún sá ekki eftir því. Vegurinn leiddi hana inn í dal með ótrúlegu útsýni yfir skriðjökul.

Hún var ekki ein um að taka þessa ákvörðun. „Akkúrat þegar ég kom upp birtist ungur maður sem var á sömu göngu,“ segir hún. Una bað unga manninn að taka af sér mynd til minningar um útsýnið og hann gerði það. „Svo gengum við saman niður, því það var engin önnur leið, og með okkur tókst bara hin besta vinátta skulum við segja.“

Svaf í tjaldi með ókunnugum frændum

Nokkru síðar á ferðalaginu var Una stödd í fjallaþorpi þegar hún ákvað að finna sér stað til að fá sér kvöldmat. Hún gekk inn á bar en sá að þar voru öll borð þéttsetin. Hún spurði barþjóninn hvort það væri nokkuð sæti fyrir sig og hann bauð henni að tylla sér hjá frænda sínum. Una þáði boðið og fékk sér súpu og bjór.

Barþjónninn kom reglulega og settist hjá þeim og Una heyrði að frændurnir voru að ræða um gönguferð sem átti að halda í daginn eftir. Smám saman dróst hún inn í samtalið og fyrr en varði var móðir barþjónsins mætt að taka þátt í planinu. „Ég var allt í einu komin í mikið fjölskyldusamtal og allt í einu segir hann: Vilt þú ekki bara koma með okkur í göngu?“ Hún ákvað að slá til, hún var allavega ágætlega skóuð, eða svo taldi hún.

Daginn eftir lagði fjölskyldan ásamt Unu af stað í rúmlega þrjátíu kílómetra göngu í einni bendu „til að komast nógu hátt upp til að geta séð yfir allan Patagóníu meginlandsísinn.“ Og í fyrsta sinn fann Una að skórnir réðu illa við ferðalagið enda var það mjög erfitt.

Um kvöldið fundu þau sér hvíldarstað. „Ég svaf bara í tjaldi með þessum argentínsku frændum sem ég hafði kynnst á barnum kvöldið áður,“ segir Una sposk.

Fyrirgaf barþjóninum þegar sokkarnir voru þurrir á ný

Á bakaleiðinni var hún orðin næstum úrvinda. Þau gengu fram á miðja nótt yfir mýri og Una varð gegnblaut í fæturna. „Ég var farin að bölva þessum manni sem hafði boðið mér í gönguna, fannst hann frekar óþolandi á þessum tíma,“ segir Una glettin. „En svo mýktist ég aftur gagnvart honum þegar ég var komin í þurra sokka.“ Una og barþjónninn halda enn sambandi í dag.

„Þar með lauk samfylgd okkar“

Eftir sex mánaða ferðalag fékk Una atvinnutilboð í Georgíu og þá þurfti hún að yfirgefa Suður Ameríku. En hún kvaddi skónna ekki strax. Til Georgíu hélt hún með skóna meðferðis og ferðaðist um landið með þá í bakpokanum.

Það má segja að kaupin á skónum sálugu rammi inn ákveðið tímabil í lífi Unu. Tímabil sem hófst með ferðalaginu til Suður-Ameríku með nýfengið frelsi í fanginu og hélt svo áfram í tvö ár.

Í nóvember á síðasta ári kvaddi Una skóna þegar hún flutti aftur til Íslands. „Þar með lauk samfylgd okkar,“ segir hún. „Skórnir voru orðnir úr sér gengnir bókstaflega en ég hafði samt haldið í þá langt umfram þeirra síðasta neysludag, svo þeir voru orðnir mjög götóttir.“

„Segi ekki að ég hafi grátið“

Þegar hún áttaði sig á að ferðataskan væri svo úttroðin að ekki væri lengur hægt að renna henni neyddist hún til að taka tímabæra ákvörðun. „Ég átti dramatíska kveðjustund sem endaði á að skórnir fóru í ruslagáminn fyrir utan heimilið mitt í Tiblisi,“ segir Una. „Ég segi ekki að ég hafi grátið en þetta var merkileg tilfinning. Ég var ekki bara að kveðja skóna, ég var að kveðja þetta tímabil í lífinu. Alla staðina sem skórnir höfðu fært mér og kannski þennan anda sem fylgdi þeim.“

Anna Marsibil Clausen ræddi við Unu Sighvatsdóttur í Ástarsögum á Rás 1.

Tengdar fréttir

Sjónvarp

Fann kærastann á Ástareyjunni og vann fyrstu verðlaun

Menningarefni

Kötturinn fann á sér að Jóhann kæmi ekki aftur heim

Menningarefni

„Þegar ég kom heim fékk ég bara taugaáfall“