Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Úlfar hverfa sporlaust í Danmörku

06.01.2021 - 02:17
Erlent · Árósar · Danmörk · Dýr · Dýralíf · Náttúra · Pólland · Villt dýr · Þýskaland
epa04867109 Gretel, a year-and-four-month old female wolf is seen at La Aurora Zoo in Guatemala City, Guatemala, 30 July 2015. As part of the Zoo development plan, Hansel and Gretel were relocated to a new enclosure, built specially for them, at the zoo
 Mynd: EPA - EFE
Á árabilinu 2012 til 2020 hurfu tíu úlfar sporlaust í Danmörku. Danska ríkisútvarpið greinir frá þessu á vef sínum og hefur eftir Peter Sunde við Háskólann í Árósum að hefðu þeir drepist af náttúrulegum ástæðum hefðu þeir átt að finnast.

Bo Håkansson sem situr í stjórn nefndar sem hefur eftirlit með villtu dýralífi í Danmörku er jafnráðvilltur og Sunde vegna þessa skyndilega hvarfs úlfanna og segir að einhvers konar heimsmet hljóti að hafa verið slegið því úlfar í landinu séu harla fáir.

Fáein ár eru síðan úlfar settust að í Danmörku að nýju en þeir höfðu ekki hafst þar við í vel á annað hundrað ár. Úlfarnir koma úr flokkum sem halda sig að mestu í Póllandi og Þýskalandi en þar í landi tók úlfa að verða vart að nýju um aldamótin.