Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Rúmar 666 milljónir í lokunarstyrki í þriðju bylgju

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Skatturinn hefur greitt rúmar 666 milljónir í lokunarstyrki til 257 fyrirtækja sem hafa þurft að loka eða hætta starfsemi í þriðju bylgju kórónuveirufaraldursins.

Heildarfjárhæð lokunarstyrkja frá upphafi er tæpur 1,7 milljarður króna og samtals hafa tæplega 1.200 fyrirtæki fengið stuðning. Opnað var fyrir umsóknir í desember fyrir þau fyrirtæki sem gert var að stöðva starfsemi frá og með 18. september. Skattinum hafa borist 517 umsóknir en samkvæmt upplýsingum þaðan var aðeins hluti þeirra fullgerður. Í mörgum tilvikum vantaði undirskrift með rafrænum skilríkjum. 

Lokunarstyrkir eru meðal þeirra úrræða sem stjórnvöld hafa gripið til til að stemma stigu við efnahagslegum afleiðingum kórónuveirufaraldursins. Þeim er ætlað að bæta upp hluta tekjufalls þeirra fyrirtækja sem hafa þurft að hætta starfsemi vegna sóttvarnareglna og hjálpa þeim að standa undir föstum kostnaði. Starfsemi sem hefur stöðvast vegna farsóttarinnar er til dæmis á hárgreiðslustofum, húðflúrsstofum, líkamsræktarstöðvum, krám, skemmtistöðum og sundlaugum.