Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Vonar að sem flestir Danir fái bóluefni fyrir sumarlok

05.01.2021 - 01:14
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Eggert Þór Jónsson, Vi - RÚV
Thomas Senderovitz forstjóri dönsku læknastofnunarinnar álítur að ef áætlanir gangi eftir verði hægt að bólusetja meirihluta fullorðinna Dana fyrir lok sumars.

Á vef danska ríkisútvarpsins er haft eftir honum að til þess að það gangi eftir þurfi að veita markaðsleyfi fyrir fleiri bóluefnum gegn COVID-19. Nú er aðeins leyft að nota bóluefni Pfizer-BioNTech í landinu.

Senderovitz býst við að næst fáist leyfi til notkunar bóluefnis Moderna sem Lyfjastofnun Evrópu hefur nú til umfjöllunar. Hun komst ekki að niðurstöðu um leyfi fyrir bóluefnið í dag en vonast er til að niðurstaða náist á miðvikudag.

Thomas Senderovitz segir að fáist leyfi þá fyrir bóluefni Moderna verði útlitið mun bjartara varðandi bólusetningaráætlun danskra stjórnvalda. Þegar hafa um 47 þúsund Danir verið bólusettir við COVID-19.