Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Miklar væntingar um góða loðnumælingu

Mynd með færslu
 Mynd:
Fimm skip eru nú rétt að hefja loðnumælingar norður af landinu, en skipin héldu af stað í rannsóknaleiðangur í gær. Áætlað er að fara yfir heldur stærra hafsvæði en rannsakað var í leiðangri í desember. Hafís er enn á svæði á Grænlandssundi sem ekki náðist að skoða þá.

Skipin sem taka þátt í þessum leiðangri eru tvö rannsóknaskip Hafrannsóknastofnunar, Árni Friðriksson og Bjarni Sæmundsson, og þrjú veiðiskip, Ásgrímur Halldórsson SF, Aðalsteinn Jónsson SU og grænlenska skipið Polar Amaroq.

Enn talsverður hafís á Grænlandssundi

Fyrir liggja upplýsingar um útbreiðslu loðnu um miðjan desember en þá mældist loðna austar en á þessum árstíma síðustu ár. Desembermælingin leiddi til veiðiráðgjafar upp á 22 þúsund tonn. Þá var lítið hægt að mæla á Grænlandssundi vegna hafíss og Birkir Bárðarson, leiðangursstjóri, segir að þar sé enn talsverður ís. „En við höfum ákveðið samt sem áður að fara af stað og við munum bara þurfa að aðlaga okkur að þeim aðstæðum sem eru þarna úti."

„Ákveðnar væntingar við stöðuna í dag“

En loðnan sé á ferðinni og því geti loðna sem var undir ísnum í desember verið komin austar og þá hægt að mæla hana þar. Ljóst er að útgerðir loðnuskipa bíða eftir þeim mælingum sem nú eru að hefjast því margt hefur bent til þess að meira sé af veiðanlegri loðnu á ferðinni en síðustu ár. „Þannig að það eru ákveðnar væntingar við stöðuna í dag og verður fróðlegt að sjá hvað kemur út úr þessu," segir Birkir.

Upplýsingar úr tveimur fyrri mælingum

Hann segir farið af stað í þennan leiðangur með nokkuð góðar upplýsingar úr tveimur leiðangrum í nóvember og desember. „Í nóvember fór grænlenska veiðiskipið yfir svæðið fyrir norðan og út frá því sáum við í rauninni hversu austarlega loðan var gengin. Út frá því var ákveðið að fara í fjölskipa aðgerð sem reyndar var borguð af útgerðum. En byggt á þeirri útbreiðslu sem þar sást byggjum við okkar leiðangur núna.“ 

Niðurstaðan metin eftir þennan leiðangur 

Áætlað er að fara í tvo leiðangra í janúar og febrúar. Birkir segir að yfirferðin núna sé metin sem sjálfstæð heild og skoðað hvort ástæða verði til að gefa út veiðiráðgjöf byggða á niðurstöðum úr henni. Síðan verði farið í annan leiðangur og niðurstaðan úr honum einnig metin sjálfstætt. Hinsvegar geti farið svo að niðurstöður úr báðum leiðangrum verð metnar saman. „Ef vísbendinarnar eru á þá leið að við séum að mæla sömu stofnsamsetninguna aftur, þá lítum við á það sem tvær samhliða mælingar sem skoðast saman. En ef eitthvað er greinilega nýtt í stöðunni þá er hver mæling metin sér.“

Veðurspáin ekki góð

En veðurspáin er ekki góð og útlit fyrir að ekki verði hægt að mæla nema fram að helgi. „Já, við erum að miða við veðurglugga sem er frekar stuttur núna,“ segir Birkir. „Það er útlit fyrir að það verði komið vont veður á föstudaginn. Þannig að til að byrja mað erum við bara að skoða það að nota þennan veðurglugga. Svo verðum við bara í framhaldinu að skoða hvernig og þá hvort við höldum áfram. Það gæti gerst að við reynum að ná annarri yfrirferð fljótlega á eftir.“