Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Milli sjö og átta hundruð í sýnatöku í dag

03.01.2021 - 12:21
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Þór Ægisson - RÚV
Fjöldi fólks fer í sýnatöku á höfuðborgarsvæðinu í dag. Þá er verið að mæla hvort mótefni fyrir kórónuveirunni greinist í þeim fjórtán farþegum sem greindust með smit í gær og fyrradag. Hver einasti nanódropi af bóluefni var nýttur á Landspítalanum í bólusetningunni í vikunni.

Ekki vitað hvort smitin eru hlutfallslega mörg

Tölulegar upplýsingar á covid.is hafa ekki verið uppfærðar frá 30. desember. Það verður gert á morgun, mánudag. 

Ekki er vitað hve margir farþegar komu til landsins í gær og á nýársdag og ekki hve mörg sýni voru tekin. Tíu farþegavélar lentu á Keflavíkurflugvelli í gær og tvær á nýársdag. Ekki er enn orðið ljóst hver margir af þeim fjórtán smituðu sem greindust á landamærunum eru með mótefni. 

Tæplega 1.200 komu í sýnatöku á Suðurlandsbraut í gær og má ætla að hluti þeirra hafi verið að koma í seinni landamæraskimun. Fjögur innanlandssmit greindust í gær. Allir sem greindust voru í sóttkví. Í dag eru 700-800 skráð í sýnatöku á höfuðborgarsvæðinu. 

Enginn með virkt smit á Landspítalanum

Enginn sjúklingur með COVID-19 liggur á gjörgæsludeild Landspítalans. Þar er heldur enginn sjúklingur með virkt smit. Hins vegar liggja 23 á spítalanum sem hafa fengið COVID-19 og margir þeirra eru að fást við afleiðingar sjúkdómsins. 

Náðu meira en fimm skömmtum úr hverju glasi

Mjög vel gekk að nýta bóluefnið sem kom í hlut Landspítalans á þriðjudaginn. Það dugði þó ekki til að sprauta alla sem eru í fyrstu tveimur forgangshópunum. Samkvæmt upplýsingum frá Landspítalanum var reynt að nýta hvern einasta nanódropa. Í öðrum löndum hefur stundum tekist að nýta meira en fimm skammta úr hverju bóluefnisglasi frá Pfizer og BioNTech. Það hefur líka tekist hér en ekki liggja fyrir upplýsingar um í hve mörgum tilfellum það hefur verið hægt. 

Einn framkvæmdastjóri bólusettur 

Á Landspítalanum var farið mjög stíft eftir reglugerð um forgangshópa í bólusetningu. Engir af æðstu stjórnendum spítalans hafa verið bólusettir með einni undantekningu þó. Einn af framkvæmdastjórum spítalans gengur vaktir á nýburagjörgæslu spítalans og því þurfti að bólusetja hann, enda í forgangshópi.