Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Mikil svifryksmengun á höfuðborgarsvæðinu

Mengun við Kópavogslæk um áramót 2020/2021.
 Mynd: Birgir Þór Harðarson
Mikil svifryksmengun er í lofti á höfuðborgarsvæðinu sem tengja má flugeldaskothríð um áramótin. Þokumóða er einnig í lofti en Eiríkur Örn Jóhannesson veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands segir í samtali við fréttastofu að verulega hafi bætt í þokuna eftir að flugeldum fjölgaði á lofti.

Að sögn Eiríks Arnar mælist vindhraði aðeins metri á sekúndu og loftið kalt þannig að engin loftblöndun verður. Því situr mengunin alveg niðri við jörð og upp í um 300 metra hæð. Skyggni er mjög lítið.

Eiríkur segir ljóst að þarna séu á ferð agnir sem ekki eru æskilegar fyrir öndunarfæri. Í skýrslu Umhverfisstofnunar um mælingar á svifryki um áramótin 2018-2019 segir að loftmengun hafi neikvæð áhrif á þá sem fyrir henni verða.

Það eigi sérstaklega við um viðkvæma hópa eins og börn, aldraða og fólk sem veikt sé fyrir. „Svifryk veldur ekki einungis óþægindum heldur skerðir lífsgæði margra,“ segir í skýrslunni.

Eiríkur Örn segir ekki vera útlit fyrir að vind hreyfi til að koma menguninni á hreyfingu, fyrr en um hádegi á morgun, nýársdag.