Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Fjármálaráðherra Ontario-fylkis í Kanada segir af sér

Rod Phillips fjármálaráðherra Ontario í Kanada sagði af sér í árslok 2020 vegna ferðalags í Karíbahafið á tímum kórónuveirunnar.
 Mynd: Getty Images
Rod Phillips fjármálaráðherra Ontario-fylkis í Kanada hefur sagt af sér. Doug Ford, forsætisráðherra fylkisins, tilkynnti afsögnina í gær eftir að hann kallaði Phillips heim úr fríi á Sankti Bartólómeusareyju í Karíbahafinu.

Strangt útgöngubann gildir í Ontario og heilbrigðisyfirvöld vara mjög við ónauðsynlegum ferðalögum, enda hefur kórónuveirutilfellum fjölgað mjög í fylkinu undanfarnar vikur.

Phillips segist hafa sýnt dómgreindarskort með því að halda í ferðalag 13. desember og hann þurfi að taka afleiðingum þeirrar ákvörðunar. „Ég hef einfaldlega engar málsbætur fyrir að hafa lagt í ferðalag sem hefði mátt sleppa,“ sagði ráðherrann fyrrverandi. 

AFP fréttastofan greinir frá því að Ford forsætisráðherra hafi lýst því yfir að afsögn ráðherrans væri til marks um að ríkisstjórn hans vildi sýna að sömu reglur ættu við um alla. Íbúar fylkisins hafi fórnað miklu til að halda útbreiðslu faraldursins í skefjum. 

„Ég er í verulegu uppnámi yfir þessu, í ljósi þess að hvern einasta dag hvet ég alla til að halda sig heima,“ sagði forsætisráðherrann í samtali við blaðamenn. „Sömu reglur eiga að gilda um kjörna fulltrúa og almenning.“