Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Færri innbrot og nauðganir en meira um heimilisofbeldi

Mynd með færslu
 Mynd: rúv
Innbrotum á höfuðborgarsvæðinu fækkaði um tæp 14 prósent á árinu 2020 og kynferðisbrotum um 29%. Þetta kemur fram í bráðabirgðasamantekt Lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu fyrir árið.

Nauðgunarkærum fækkaði á árinu um 46% samanborið við fyrri ár. Flest þeirra 9.400 hegningarlagabrota sem lögreglan á höfuðborgarsvæðinu sinnti á árinu tengjast þjófnuðum og innbrotum.

Innbrotum á heimili fækkaði um tæp tíu prósent miðað við meðaltal fyrri ára og innbrotum í bíla fækkaði um 40%. Innbrotum í fyrirtæki fjölgaði hins vegar um 14 af hundraði en fjöldi þjófnaða var svipaður og fyrri ár.

Lögregla veltir fyrir sér hvort breytingar vegna kórónuveirufaraldursins skýri þróunina að einhverju leyti, til að mynda vegna aukinnar vinnu fólks heima við, færri utanlandsferða og því að ferðamönnum hafi fækkað.

Fjöldi líkamsárása á höfuðborgarsvæðinu hefur staðið í stað um nokkurra ára skeið en heimilisofbeldismálum fjölgaði um níu af hundraði á liðnu ári. Karlar voru um 78% gerenda og 31% þolenda en meðaldur í slíkum málum hefur hækkað undanfarin ár og er nú 36 ár.

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV