Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Breska þingið samþykkir lög um framtíðarsamskipti

epa08911454 A handout photograph released by the UK Parliament shows Britain's Prime Minister Boris Johnson during the debate in the House of Commons on the EU (Future Relationship) Bill  in London, Britain, 30 December 2020.  EPA-EFE/JESSICA TAYLOR/UK PARLIAMENT HANDOUT HANDOUT EDITORIAL USE ONLY/NO SALES HANDOUT EDITORIAL USE ONLY/NO SALES
 Mynd: EPA-EFE - UK PARLIAMENT HANDOUT
Breska þingið samþykkti í gær, miðvikudag, löggjöf sem lýtur að framtíðarsamskiptum við Evrópusambandið. Þingið var kallað til starfa úr jólafríi til að ræða og greiða atkvæði um lögin sem voru afgreidd á mettíma.

Neðri deildin samþykkti þau með 521 atkvæði gegn 73, flestir þingmenn Verkamannaflokksins samþykktu lögin eftir að Keir Starmer, leiðtogi flokksins sagði rýran samning skárri en engan.

Allir aðrir stjórnarandstöðuþingmenn greiddu atkvæði á móti. Að svo búnu fóru lögin gegnum lávarðadeildina án atkvæðagreiðslu og Elísabet II. Bretadrottning staðfesti þau loks með konunglegri undirritun þar sem hún var stödd í Windsor-kastala.

Ursula von der Leyen og Charles Michel, leiðtogar Evrópusambandsins og Boris Johnson forsætisráðherra Bretlands undirrituðu 1246 blaðsíðna viðskipta- og samvinnusamning á miðvikudagsmorgun.

Aðlögunartímabili vegna útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu lýkur á miðnætti, þá tekur samningurinn gildi en Evrópuþingið mun ekki staðfesta hann formlega fyrr en snemma á nýju ári. Öll 27 aðildarríki sambandsins féllust á samninginn fyrr í vikunni.