Þakklátir að endurheimta persónulega muni
„Það gengur ágætlega. Þetta verður gert frekar hægt, það verður reynt að kemba yfir allt saman sem er tekið frá svæðinu og athugað hvort við finnum persónulega muni,“ sagði Davíð í Morgunútvarpi Rásar tvö.
„Við fundum nokkur myndaalbúm og eina biblíu sem viðkomandi þótti mjög vænt um.“
Ekki vitað hvenær hreinsunarstörfum lýkur
Hann segir erfitt að segja til um hvenær hreinsunarstörfum lýkur.
„Þetta er bara fjall, þetta er ótrúlega mikið af jarðveg sem er þarna með. Þannig að við vitum ekki hvaða tímaramma við eigumað gefa okkur. Þetta hefur ekki verið gert svona áður.“
Davíð segir íbúa enn að meðtaka áfallið sem skriðurnar ollu íbúum og breytta ásýnd bæjarins.
„Að standa kannski á stað þar sem fyrir nokkrum dögum var fallegur garður og fallegt hús og í dag er bara brekka. Fjallið hallar bara með einhvern veginn. Þú ert kominn upp í hallann á fjallinu bara niðri á götu. Þetta eru gríðarleg öfl,“ segir Davíð.