Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Tína ýmislegt heillegt úr rústum Tækniminjasafnsins

Mynd með færslu
 Mynd: Hólmfríður Dagný Friðjónsd - RÚV
Rústasveit Austurlands er nú við hreinsun í rústum Tækniminjasafnsins á Seyðisfirði sem gjöreyðilagðist í aurflóðunum þar fyrir jól. Ýmislegt heillegt hefur fundist í rústunum.

Þetta er fyrsta eiginlega útkall rústasveitarinnar eftir 20 ára þjálfun. Tækniminjasafnið og munir þess er mjög illa farnir eftir að stóra skriðan 18. desember sópaði safninu með sér.

Í skriðunni snerist húsið sem hýsti safnið 90 gráður miðað við það hvernig það stóð áður.

Þegar fréttamaður RÚV var á ferð við Tækniminjasafnið í morgun var verið að tína til smáhluti sem voru á efri hæð hússins. Það sem var á neðri hæðinni er á kafi í drullu.

Smáhlutir eru settir í ker og síðan flutt í burtu til nánari skoðunar og yfirferðar. Í kerin hafa verið settir ýmsir munir. Myndir og pappír, filmur og annað slíkt. Þeir munir sem snjóað hefur á verða settir í frost í frystihúsinu, svo bráðin skemmi ekki enn meira.