Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Loðnumælingar í janúar og febrúar

Mynd með færslu
 Mynd:
Hafrannsóknastofnun áætlar að farið verði í rannsóknaleiðangur á fimm skipum, til að mæla loðnu, í byrjun janúar og annar leiðangur er áætlaður í febrúar.

Fyrri leiðangurinn er áætlaður 4. janúar, eða eins snemma og veður leyfir. Þær mælingarnar verða framkvæmdar á rannsóknaskipunum Árna Friðrikssyni og Bjarna Sæmundssyni, ásamt loðnuveiðiskipunum Ásgrími Halldórssyni SF, Aðalsteini Jónssyni SU og grænlenska skipinu Polar Amaroq.

Um borð í öllum skipunum verða þrír starfsmenn Hafrannsóknastofnunar við að vakta bergmálstæki og vinna úr sýnum. 

„Áætlað er að yfirferðasvæðið verði lítið eitt stærra en svæðið sem var farið yfir í desember og leiddi til veiðiráðgjafar upp á 22 þúsund tonn. Vonast er til að hægt verði að ná yfir svæðið út af Vestfjörðum sem var að hluta til hulið hafís í desembermælingunni,“ segir í tilkynningu frá Hafrannsóknastofnun.

Mynd með færslu
 Mynd: Hafrannsóknastofnun
Áætluð yfirferð í janúarleiðangrinum

Þá stendur til að fara aftur til mælinga í byrjun febrúar. Nákvæm tímasetning og umfang þess leiðangurs ræðst meðal annars af veðri, útbreiðslu loðnu og aðstæðum til mælinga.