Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Fjallar um áður óbirt sendibréf Ástu Sigurðardóttur

Ævi Ástu Sigurðardóttur, rithöfundar og myndlistarkonu, er gerð skil í nýjum útvarpsþætti Veru Sölvadóttur, sem byggist að hluta á áður óbirtum sendibréfum Ástu til systur sinnar. „Í bréfunum fannst mér ég sjá manneskju sem var bæði mjúk og hörð og jafnvel svolítið berskjölduð,“ segir Vera.
 Mynd: - - Einkasafn

Fjallar um áður óbirt sendibréf Ástu Sigurðardóttur

23.12.2020 - 10:53

Höfundar

Ævi Ástu Sigurðardóttur, rithöfundar og myndlistarkonu, eru gerð skil í nýjum útvarpsþætti Veru Sölvadóttur, sem byggist að hluta á áður óbirtum sendibréfum Ástu til systur sinnar. „Í bréfunum fannst mér ég sjá manneskju sem var bæði mjúk og hörð og jafnvel svolítið berskjölduð,“ segir Vera.

„Alveg frá því að ég las sögurnar hennar Ástu fyrst hef ég haft gífurlegan áhuga á henni. Ég hef alltaf viljað vita hvers vegna líf hennar fór eins og það fór,“ segir Vera Sölvadóttir, en Ásta lést langt fyrir aldur fram þann 21. desember árið 1971, aðeins 41 ára að aldri.

Þannig vildi til að Veru áskotnaðist áður óbirt sendibréf frá Ástu sem stíluð eru á yngri systur hennar, Oddnýju Sigurðardóttur, sem þá stundaði nám í Kaupmannahöfn. Bréfin eru skrifuð á miklum straumhvarfaárum í lífi listakonunnar og varpa frekara ljósi á persónu hennar og tilveru.

Mynd með færslu
Vera Sölvadóttir.

Lesið er upp úr bréfunum í þættinum Helmingi dekkra en nóttin, sem fluttur er í tveimur hlutum á Rás 1, 27. desember og 3. janúar.

„Þegar ég var að kynnast manninum mínum fyrir tæpum fjórum árum fór ég að tala um Ástu við hann. Þá sagði hann mér eins og ekkert væri að Ásta væri móðursystir hans. Þetta kom mér verulega á óvart en Oddný yngri systir Ástu er sumsé mamma mannsins míns og þess vegna hef ég þessi bréf undir höndum. Málið var því orðið mér skylt og ég gat farið bakdyramegin inn, fann þessi bréf og hugsaði að nú væri tækifærið til að gera eitthvað með söguna hennar.“

Bæði mjúk og hörð

Á næsta ári eru 50 ár liðin síðan Ásta dó og hún hefði orðið níræð í apríl á þessu ári. Ásta vakti athygli bæði á sviði rit- og myndlistar og hún þótti ögrandi í smábænum Reykjavík um miðja 20. öld. Auk þess var Ásta oft kölluð Ásta módel og varð vinsælt umræðuefni bæjarbúa þar sem hún hafði að atvinnu að sitja fyrir nakin fyrir myndlistarnema.

„Mér finnst stundum þegar ég tala við fólk sem þekkir til hennar eða hafði jafnvel þekkt hana eins og það tali um hana eftir fyrirfram ákveðinni formúlu,“ segir Vera, „eins og saga hennar sé sú saga sem búið er að mála upp fyrir okkur.“

Saga Ástu er þó stór og djúp bætir hún við – miklu meira en bara svart og hvítt. „Í bréfunum fannst mér ég sjá manneskju sem var bæði mjúk og hörð og jafnvel svolítið berskjölduð. Það er greinilegt að þær systur voru nánar enda aðeins tvö ár á milli þeirra.“ 

Mynd: - / Aðsend

Ásta var aðeins 21 árs þegar fyrsta bréfið var skrifað. Það kom Veru á óvart hve þroskuð og skörp Ásta var miðað við aldur. „Þarna er greinilega djúpt þenkjandi vitsmunavera á ferð. Hún er þá þegar orðin móðir og nýbúin að mennta sig. Fyrsta bréfið er skrifað sama ár og frægasta smásaga hennar, Sunnudagskvöld til mánudagsmorguns kemur út í Lífi og List árið 1951, og hún er orðin umtöluð í Reykjavík.“ 

Tregablandin og margslungin saga

Í fyrri þættinum er áhersla lögð á tímabilið þar sem bréfin eru skrifuð, á yngri árum Ástu. Í seinni þættinum er hins vegar fjallað um tímabilið þar sem hún hefur kynnst skáldinu Þorsteini frá Hamri, með honum eignaðist hún fimm börn með stuttu millibili og fór þá að halla verulega undan fæti í lífi hennar.

„Þetta voru átakanleg ár en að sumu leyti líka góð,“ segir Vera. Þegar Ásta og Þorsteinn skilja varð hún ein eftir með börnin. „Það var henni skiljanlega erfitt og efnaleysið líka. Að endingu missir hún börnin frá sér sem er hinn raunverulegi harmleikur. Ásta deyr svo með sviplegum hætti árið 1971 frá börnunum sínum sex sem er þeim að sjálfsögðu afar þungbært. Saga hennar er tregablandin, en eins og ég kom inn á áðan er hún margslungin.“

Vera fékk tækifæri til að tala við tvö elstu núlifandi börn Ástu, Þóri Jökul og Dagnýju Þorsteinsbörn. „Þau sýndu mér mikið traust með því að samþykkja að vera viðmælendur mínir í þættinum. Ég held að það hefði í raun verið ómögulegt fyrir mig að reyna að gera sögu hennar einhvers konar skil fyrr en einmitt núna.“ 

Helmingi dekkra en nóttin, þættir um Ástu Sigurðardóttur, eru á dagskrá Rásar 1 27. desember og 3. janúar klukkan 13:00.