Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Stefnir í fjórðu kosningarnar á tveimur árum

22.12.2020 - 01:06
epa08063656 General view of Knesset members during a vote on a bill to dissolve the Israeli Parliament at the Knesset plenum (parliament) in Jerusalem, Israel, 11 December 2019. Media reports state that the Israeli government vote on a bill to dissolve the Israeli Parliament and will go to a third elections presumably on 02 March 2020 after negotiations talks between the Likud Party and the Blue and White Party failed.  EPA-EFE/ABIR SULTAN
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Þingmenn á Knesset, ísraelska þinginu, höfnuðu í dag að gefa ríkisstjórninni meira svigrúm til að ljúka fjárlagagerð. Það eykur líkurnar á því að þingið verði leyst upp og efnt til kosninga, þeirra fjórðu á innan við tveimur árum.

Mikið basl hefur verið á samsteypustjórn andstæðra fylkinga Likud flokks Benjamíns Netanjahú og Blá-hvíta bandalags Benny Gantz varnarmálaráðherra. Gantz hefur sakað forsætisráðherrann um að vilja ekki staðfesta fjárlögin vegna persónulegs metnaðar.

Í stjórnarsáttmáli þeirra, gerðum til þriggja ára, er áætlað að Netanjahú verði forsætisráðherra um 18 mánaða skeið en að Gantz taki við í nóvember 2021.

Gantz hefur lagt til að samþykkt verði fjárlög til tveggja ára, vegna afleiðinga kórónuveirukreppunnar, en Netanjahú hafnar því. Andstæðingar hans segja það pólítískan skollaleik til að halda völdum.  

Hann gæti þannig fellt ríkisstjórnina áður en hann yrði að afhenda Gantz lyklana að forsætisráðuneytinu. Samkomulag sem flokkarnir sögðust hafa náð um fjárlögin á sunnudag virðist því tálsýn ein. 

Verði fjárlög ekki samþykkt um miðnætti miðvikudags verður þingið leyst upp og efnt til kosninga, að öllum líkindum í mars næstkomandi.