Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Þyrla Gæslunnar á leið austur

20.12.2020 - 10:09
Mynd með færslu
 Mynd: Landhelgisgæslan - RÚV
Þyrla Landhelgisgæslunnar, TF-GRO, lagði af stað frá Reykjavík upp úr klukkan hálf tíu í morgun til Egilsstaða, þar sem hún verður til taks vegna aurskriðanna sem fallið hafa á Austfjörðum undanfarna daga.

Samkvæmt upplýsingum frá Landhelgisgæslunni er þyrlan með fullmannaða áhöfn og er læknir um borð. Búist er við að þyrlan lendi fyrir austan um 11-leytið.

Vanalega hefur Landhelgisgæslan tvær þyrlur tiltækar. Vegna verkfalls flugvirkja, sem Alþingi stöðvaði með lagasetningu 27. nóvember, tafðist reglubundin eftirlitsskoðun á hinni þyrlunni, TF-EIR og verður hún væntanlega útkallshæf síðar í þessari viku. TF-GRO er því eina þyrla Gæslunnar sem nú er útkallshæf.

Ekki hefur verið tekin ákvörðun um hversu lengi hún verður fyrir austan.