Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Svíakonungur lét þung orð falla

17.12.2020 - 09:25
Frá opinberri heimsókn Guðna Th. Jóhannessonar forseta til Svíakonungs í janúar 2018.
 Mynd: Kungahuset
Okkur hefur mistekist að bjarga mannslífum, þessu slær Karl Gústaf 16. Svíakonungur föstu, í sjónvarpsþætti þar sem konungsfjölskyldan gerir upp árið. Vísar hann þarna til þess að yfir 7000 manns hafa látist af völdum Covid-19 í landinu. Sænska þjóðin hafi þjáðst. 

Henrik Wenander, lagaprófessor við háskólann í Lundi, segir í samtali við sænska ríkissjónvarpið, SVT, að túlka megi orð konungsins sem gagnrýni á ríkisstjórnina, það sé óvenjulegt að hann tjái sig með þessum hætti, enda hlutverk hans ekki pólitískt samkvæmt stjórnarskrá, heldur að vera sameiningartákn.

Smitum fjölgar í Noregi

Í Noregi hefur smitum fjölgað milli vikna, norska lýðheilsustofnunin, FHI, segir í nýjustu samantekt sinni að um síðustu helgi hafi yfir 5000 smitandi manneskjur verið úti í samfélaginu, meirihluti þeirra hafi ekki hugmynd um að þær séu með veiruna.
 

 

arnhildurh's picture
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV