Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Sprengjugerðarmaður verður ákærður í Lockerbie-málinu

Mynd með færslu
 Mynd: Wikimedia
Bandarísk yfirvöld hafa í hyggju að opna á ný fyrir ákæru á hendur líbískum manni sem grunaður er um að hafa sett saman sprengjuna sem grandaði bandarískri þotu yfir Lockerbie í Skotlandi árið 1988.

Maðurinn, Abu Agila Mohammad Masud að nafni, er í haldi Líbíumanna og bandarísk yfirvöld hafa farið fram á að hann verði framseldur að því er fram kemur í The Wall Street Journal. Hann var einn helsti sprengjugerðarsérfræðingur Moamars Ghaddafi fyrrverandi leiðtoga landsins.

Málatilbúnaður gegn Masud byggir að mestu á játningu hans í heimalandinu árið 2012 og skrám um ferðir hans á þeim tíma sem sem tilræðið var framið. Í yfirlýsingu frá Alríkislögreglu Bandaríkjanna (FBI) segir að málið hafi verið rannskað í þaula undanfarin 32 ár. 

„Við getum fullvissað almenning, og ekki síst aðstandendur fórnarlamba þessa hræðilega glæps að einskis hefur verið látið ófreistað við að komast til botns í hver beri ábyrgð á ódæðinu,“ segir í yfirlýsingunni. 

Lýbíumaðurinn Abdelbaset Mohmet Al-Megrahi var dæmdur til lífstíðarfangelsis fyrir aðild sína að málinu árið 2001. Skoskir dómarar hugleiða nú hver niðurstaða þeirra verður eftir að mál hans var tekið fyrir að nýju að honum látnum í síðasta mánuði.