Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

„Vonandi nýtist þetta ekki“

16.12.2020 - 10:13
Mynd: Björgvin Kolbeinsson / RÚV
„Við áttum smá afgang og ákváðum að eyða honum í þetta," segir slökkviliðsstjórinn á Grenivík en hann gekk ásamt félaga sínum úr liðinu hús úr húsi á dögunum og gaf bæjarbúum reykskynjara. Þeir vona þó að ekki þurfi að nýta búnaðinn.

Yfirfara búnað á öllum heimilum

Þorkell Már Pálsson, slökkviliðsstjóri segir verkefnið hafa gengið vonum framar. Liðsmenn slökkviliðsins komu ekki bara færandi hendi heldur buðu þeir bæjarbúum upp á yfirferð á eldvarnabúnaði.

„Við erum að fara í hús hérna í hreppnum, öll hús og gefa reykskynjara og bjóða upp á slökkvitækjaþjónustu, bæði þá að fara með slökkvitæki í skoðanir og eins útvega ný tæki og eldvarnarteppi og hvað eina,“ segir Þorkell. 

Dreifðu 130 skynjurum

Sveitin hefur nú dreift yfir 130 skynjurum en þeir vona að ekki þurfi að koma til þess að þeir verði notaðir. „Slökkviliðið gefur þetta náttúrulega. Það hefur ekki verið mikið af æfingum á síðasta ári þannig að við áttum smá afgang útaf þessu Covid, dæmi. Þannig að við ákváðum að eyða honum í þetta, góðar forvarnir,“ segir Þorkell. 

„Vonandi nýtist þetta ekki“

Ingólfur Björnsson, varðstjóri, vonar að ekki komi til þess að skynjararnir. „Vonandi nýtist þetta ekki, þetta er nú eins og starf slökkviliðsmanna er þannig að við erum æfa okkur og mennta okkur til að gera eitthvað sem við viljum alls ekki gera sko.“

Mynd með færslu
 Mynd: Björgvin Kolbeinsson - RÚV
Þorkell og Ingólfur