Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Strangar reglur í Færeyjum um jól og áramót

16.12.2020 - 02:17
Erlent · COVID-19 · Evrópa · Færeyjar · Jólin · Sóttvarnir
Mynd með færslu
 Mynd: CC0 - Pixabay
Þjóðkirkjan færeyska heldur engar opnar kirkjuathafnir á aðfanga- og jóladag heldur verður þeim streymt eða sýndar í sjónvarpi. Þetta er meðal þess sem fram kemur í nýjum sóttvarnarreglum í Færeyjum sem kynntar voru í byrjun viku og eiga að gilda um jól og áramót.

Öðrum söfnuðum er ráðlagt að hafa sama háttinn á og skólar eru hvattir til að halda ekki fjölmennar jólasamkomur þetta árið og sleppa kirkjuheimsóknum. Veitinga- og öldurhúsum er gert að loka klukkan tíu að kvöldi, dagana 17. desember til 4. janúar.

Lögmaður Færeyja, Bárður á Steig Nielsen, kynnti reglurnar á mánudag. Fólki sem ætlar að sækja eyjarnar heim er gert að gæta sérstaklega vel að sóttvörnum dagana fyrir ferðalagið.

Flest komi frá löndum þar sem mikið sé um kórónuveirusmit en ætlast er til að fólk hafi farið í skimun þremur dögum fyrir brottför. Við komuna til Færeyja er ætlast til sex daga sóttkvíar fram að síðari skimun.

Á meðan er ætlast til sem minnst samneytis við annað fólk og alls ekki við fólk í áhættuhópum. Stranglega er varað við heimsóknum á sjúkrahús og hjúkrunarheimili. Jafnframt er ekki ætlast til að fólk fari í verslanir fyrr en neikvæð niðurstaða síðari skimunar liggur fyrir.

Jólaverslunin verður með óvenjulegu sniði þar sem gert er ráð fyrir að aðeins einn af hverju heimili fari í verslunarleiðangur hverju sinni og reyni að velja tíma þegar fáir eru á ferli.

Hreinlæti skal í hávegum haft, viðskiptavinir og starfsfólk skuli nota hlífðarbúnað og verslanir útvegi hann.