Nú þegar bóluefni eru handan við hornið og útlit fyrir að árangur náist í slagnum við faraldurinn velta margir fyrir sér hvað verði um öll árskortin og æfingagjöldin sem ekki hefur verið hægt að nota í faraldrinum. Ljóst er að í mörgum tilvikum hefur ekki verið hægt að nýta þessa þjónustu vegna þess að hún hefur ekki verið í boði sökum sóttvarnareglna.
Réttur neytenda er nokkuð skýr þegar kemur að gildistíma segir Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna. Hann segir að þetta hafi verið skoðað þegar fyrsta bylgja faraldursins reið yfir.
„Við komust að því að neytendur eiga rétt á því að fá framlengd árskort, mánaðarkort eða slíkt eða þá að fá endurgreitt fyrir þann tíma sem þeir missa niður,“ segir Breki.
Langþráður draumur margra rættist í síðustu viku þegar sundlaugar voru opnaðar aftur. Þó er einungis heimilt að taka á móti helmingi leyfilegra gesta. Fastagestir í sundlaugum eru yfirleitt með árskort. Breki segir að reglan sér skýr og rætt hafi verið við forsvarsmenn sundlauganna. Brugðist hafi verið við í Reykjavík þar sem kort eru framlengd um þann tíma sem laugarnar hafa verið lokaðar.
Breki segir að sömu reglur gildi um t.d. líkamsræktarstöðvar, leikhús og æfingagjöld barna og unglinga. Meginreglan sé sú að ef ekki sé hægt að veita þjónustuna eigi ekki heldur að rukka fyrir hana.
Hann segir að fyrirspurnum til Neytendasamtakanna sem tengjast COVID-19 hafi fjölgað mikið á þessu ári.
„Fyrirspurnum hefur fjölgað um meira en 70%. Meira en helmingur þeirra tengjast covid,“ segir Breki Karlsson. Rætt var við hann í Speglinum.