Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Jólin reynast syrgjendum oft erfið

13.12.2020 - 13:13
Mynd með færslu
 Mynd: Grafarvogskirkja
Aðdragandi jóla og jólahátíðin geta verið mörgum erfiður tími, ekki síst þeim sem misst hafa ástvini, segir Guðrún Karls Helgudóttir, sóknarprestur í Grafarvogskirkju. Aðventustund fyrir syrgjendur verður send út á RÚV klukkan 17 í dag.

„Þarna gefst fólki tækifæri og rými til að taka frá stund og minnast þeirra sem eru látin, þeirra sem eru farnir frá okkur. Þessi stund er bæði mikilvæg fyrir þá sem hafa nýlega misst, þeirra sem syrgja og sakna, en ekki síst fyrir þá sem einhverntíma hafa misst og þykir gott að geta tekið frá svolitla stund, sérstaklega á aðventunni til að minnast og hugsa til þeirra sem eru farin frá okkur.“Segir Guðrún.

Hún segir að eins dásamleg og jólin geta verið séu þau mörgum erfið. Þau sérstöku jól sem eru í vændum valdi eflaust mörgum kvíða og áhyggjum. Athöfnin verður sýnd á RÚV klukkan 17. Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands flytur hugvekju, Agnes M. Sigurðardóttir biskup fer með lokaorð og lifandi tónlist verður í höndum Sigríðar Thorlacius, Sigurðar Guðmundssonar, Matthíasar Stefánssonar og Hilmars Arnar Agnarssonar.

„Þessi stund byggist svolítið á því að fólk fái tækifæri til að koma fram og kveikja á kerti og minnast látinna. Þannig að í dag og í kvöld hvetjum við fólk til að vera með kerti við höndina heima og kveikja þegar kertaljósastundin kemur. Svo er fólk hvatt til að kveikja jafnvel á kerti úti, friðarkerti í dag til að sýna þeim sem syrgja hluttekningu,“ segir Guðrún.

Útsendingin verður send út kl 17 á RÚV og einnig hér á vefnum ruv.is. Táknmálstúlkuð útsending verður á RÚV 2 kl 16:40.