Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Landamæri Kanada, Bandaríkjanna og Mexíkós áfram lokuð

12.12.2020 - 06:43
Kanadísk lögregla á lokuðum landamærum Bandaríkjanna og Kanada. Landamærunum var lokað 21. mars til að hamla útbreiðslu kórónaveirunnar.
 Mynd: epa
Lengstu samfelldu landæmæri heims, milli Bandaríkjanna og Kanada, verða lokuð til 21. janúar hið minnsta, vegna kórónaveirufaraldursins. Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada, greindi frá þessu á fréttamannafundi í gær og sagði þetta sameiginlega ákvörðun grannríkjanna. Chad Wolf, settur yfirmaður heimavarnaráðuneytisins bandaríska, greindi líka frá þessu á Twitter og tilkynnti að landamæri Bandaríkjanna og Mexíkós yrðu einnig lokuð til 21. janúar.

Aðeins opið fyrir vöruflutninga og sannanlega brýn erindi

Landamærunum var lokað í mars til að hefta útbreiðslu kórónaveirunnar og hefur lokunin verið framlengd um mánuð í senn allar götur síðan. Lokað er fyrir alla umferð nema vöruflutninga og ferðir fólks sem telst eiga brýnt erindi yfir landamærin.

Kanada hefur komist mun betur frá heimsfaraldrinum en nágrannarnir í suðri. Önnur bylgja farsóttarinnar geisar þó í öllum þremur ríkjunum um þessar mundir og hefur verið gripið til harðari sóttvarnaaðgerða í þeim öllum. .