Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Hægri öfgamenn brugga finnsku stjórnmálafólki launráð

12.12.2020 - 04:32
epa08060232 Finland's new ministers (L-R) Li Andersson Minister of Education, Maria Ohisalo Minister of the Interior, Prime Minister Sanna Marin, Katri Kulmuni Minister of Finance and Thomas Blomqvist Minister for Nordic Cooperation and Equality speak at press conference in Helsinki, Finland, 10 December 2019.  EPA-EFE/KIMMO BRANDT
Fimm ráðherrar í ríkisstjórn Sönnu Marin, frá vinstri: Li Andersson, menntamálaráðherra, Maria Ohisalo, innanríkisráðherra, Sanna Marin, forsætisráðherra, Katri Kulmuni, fjármálaráðherra og Thomas Bloqvist, ráðherra jafnréttismála og norrænnar samvinnu Mynd: EBU
Finnsk lögregla komst í haust á snoðir um ráðabrugg hægri öfgamanna um alvarleg ofbeldisverk gegn háttsettu stjórnmála- og embættisfólki í landinu. Frá þessu var greint í finnskum fjölmiðlum í gær. Samkvæmt þeim hefur hópur hægri öfgamanna lagt á ráðin um „alvarleg brot gegn lífi og heilsu“ ótilgreinds fólks í framlínu finnskra stjórnmála og stjórnsýslu.

Lögreglumaður í hópi grunaðra

Finnska rannsóknarlögreglan staðfestir að hún sé að rannsaka það sem virðist vera samsæri hægri öfgamanna um ofbeldisbrot gegn stjórnmála- og embættisfólki. Allmargir liggja undir grun, þar á meðal einn lögreglumaður, og brotin sem eru til rannsóknar eru sögð af ýmsu tagi, þar á meðal vopnalagabrot.

Lögreglumaðurinn sem liggur undir grun hefur verið leystur frá störfum. Hann er sagður félagi í sama byssuklúbbi og hinir sem hafa stöðu grunaðra í rannsókninni og samkvæmt blaðinu Helsingin Sanomat er hann einnig grunaður um að hafa lekið trúnaðargögnum í þessa félaga sína.

Margir grunaðir en enginn handtekinn

Í fyrstu fréttum af málinu því haldið fram að ráðabruggið beindist að þeim Mariu Ohisalo, innanríkisráðherra, og ríkissaksóknaranum Raiju Toiviainen, en því vísar lögregla á bug.

Á vef finnska ríkisútvarpsins, YLE, kemur fram að rannsókn málsins hafi byrjað í haust en að brotin sem til rannsóknar eru teygi sig lengra aftur. Þótt allnokkrir menn hafi stöðu grunaðra í málinu hefur enginn þeirra verið handtekinn enn sem komið er. 
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV