Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Loftslagsmarkmiðið nú 55% minni losun 2030

10.12.2020 - 12:39
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Vilhjálmur Þór Guðmundsson
Til þess að ná metnaðarfyllri markmiðum gagnvart Parísarsamkomulaginu ætla íslensk stjórnvöld að setja meiri kraft í bindingu kolefnis úr andrúmsloftinu og að minnka losun gróðurhúsalofttegunda. Enn á eftir að útfæra aðgerðir til að ná þessu markmiði.

Ísland hefur uppfært markmið sitt um minni losun gróðurhúsalofttegunda til ársins 2030 og stefnir að 55% minni losun þá miðað við árið 1990. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra greinir frá þessu í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag og á vef Stjórnarráðsins.

Sem fyrr eru markmið Íslands gagnvart Parísarsamkomulaginu frá 2015 skilgreind í samkomulagi við Evrópusambandið og Noreg. Þegar samkomulagið var gert í París lögðu öll aðildarríkin fram eigin markmið um losun og á þeim markmiðum er samkomulagið unnið. Markmiðin skal svo endurskoða á fimm ára fresti og fyrsta endurskoðunin er í ár.

Í samkomulagi Íslands við ESB er hverju landi svo úthlutað því sem kallað er sanngjörn hlutdeild í sameiginlegu markmiði. Hlutur Íslands í fyrra markmiðinu var um 29 prósent minni loson, en í nýja markmiðinu líklega um 40 til 45 prósent, að sögn Katrínar.

Loftslagsráðstefna Sameinuðu þjóðanna átti að fara fram í Glasgow í Skotlandi um þessar mundir en henni var frestað vegna farsóttarinnar. Uppfærð markmið Íslands, Noregs og ESB verða þess vegna kynnt formlega á fjarfundi Sameinuðu þjóðanna á laugardag.

Aukin binding

Til eru tvær meginleiðir til þess að minnka gróðurhúsalofttegundir í andrúmsloftinu. Þær eru minni losun gróðurhúsalofttegunda út í andrúmsloftið og binding kolefnisins úr andrúmsloftinu í jörð, gróður eða með öðrum hætti.

Aðgerðaáætlun stjórnvalda í loftslagsmálum var síðast uppfærð í sumar og hún á að skila 35 prósent samdrætti til 2030. Ekki hefur verið útfært ítarlega hvernig þessu uppfærða markmiði verður náð. Þær aðgerðir sem eiga að stuðla að samdrætti í útblæstri eiga að skila 5-11 prósenta viðbótarárangri við það sem þegar hefur verið útfært.

Aukin kolefnisbinding ein og sér telst aðeins að hluta til þeirrar losunar gróðurhúsalofttegunda sem eru á beinni ábyrgð stjórnvalda í Parísarsamkomulaginu. Aðgerðir á þessu sviði munu stuðla að ávinningi gagnvart markmiði Íslands um kolefnishlutleysi eftir 20 ár.

„Þar hefur nú Ísland vakið athygli, bæði fyrir aðgerðir á sviði landgræðslu og skógræktar, en líka fyrir þær nýjungar einsog að dæla koldíoxíði niður í jarðlög, niður í berggrunninn í raun og veru. Þannig að við teljum að þar séu töluverð tækifæri til að gera betur,“ segir Katrín.

Spurð hvort áhersla Parísarsamkomulagsins sé ekki frekar á að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda frekar en að binda þær segir forsætisráðherra:

„Það er mikilvægt að gera hvort tveggja. Raunar er það þannig að Parísarsamningurinn fjallar um hvort tveggja og það er auðvitað bara hluti af þessu, það er, að við munum bæði þurfa að draga úr losun en það er líka mikilvægt binda meira kolefni.“

Ísland vel í stakk búið

Katrín segir að samkvæmt uppfærðri loftslagsáætlun sem kynnt var síðasta sumar bendi allt til að Ísland nái betri árangri en stefnt var að. Sú áætlun sé góður grunnur til að ná fyrrgreindu markmiði, en til þess þurfi að efla ýmsar aðgerðir eins og orkuskipti, ekki aðeins í samgöngum heldur nánast öllum geirum samfélagsins. Þegar hafi náðst góður árangur með betri orkunýtingu.

„Það er ekkert útilokað að það þurfi að auka orkuframleiðslu til lengri tíma og þar þurfum við að horfa til fjölbreytni því það er ekki nákvæmlega það sama sem hentar til að mynda í samgöngum í þéttbýli eða þungaflutningum,“ segir Katrín.

Þrátt fyrir að fjárframlög til umhverfismála hafi verið aukin um 47 prósent í forsætisráðherratíð Katrínar er nauðsynlegt að efla valdar aðgerðir á sviði loftslagsmála. Hún nefnir sem dæmi að hægt sé að flýta aðgerðum í orkuskiptum og auka stuðning við loftslagsvæna nýsköpun. Við gerð fjármálaáætlunar á næsta ári verður tekið mið af þessu.

Í þeirri viðspyrnu sem þarf að verða í efnahagskerfinu vegna heimsfaraldursins er gert ráð fyrir grænum áherslum. Sem dæmi þá gætu skapast störf í uppgræðslu lands.

Loftslagstengd þróunarsamvinna

Katrín segir að efldur metnaður Íslands sé á þremur sviðum. Það er að draga úr losun og auka bindingu kolefnis, eins og rakið er hér að ofan. Þriðja sviðið er aukin áhersla á loftslagstengda þróunarsamvinnu.

Þar er sérstaklega horft til verkefna á sviði sjálfbærrar orku og séríslenskrar þekkingar þar. Til dæmis er sjónum beint á nýtingu jarðhita í Austur-Afríku.

Þá verður stutt við landgræðslu og jafnréttismál í tengslum við loftslagsbreytingar með samstarfi við stofnanir Sameinuðu þjóðanna.