Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Jónas Ingi í úrslit á EM unglinga í áhaldafimleikum

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV

Jónas Ingi í úrslit á EM unglinga í áhaldafimleikum

10.12.2020 - 09:39
Jónas Ingi Þórisson varð í gær fyrstur Íslendinga til að komast í úrslit í fjölþraut á EM ungling í áhaldafimleikum. Þá tryggði hann sér jafnframt sæti í úrslitum á stökki. Þá er hann varamaður í úrslitum á gólfi og tvíslá.

Evrópumótið í áhaldafimleikum fer nú fram í Mersin í Tyrklandi og stendur til 13. desember. Jónas Ingi tryggði sér sæti í úrslitunum í gær. Jónas mun keppa til úrslita í fjölþraut á morgun og í úrslitum á stökki á sunnudaginn kemur. Jónas segir að þetta hafi verið markmiðiðið á mótinu; „Þetta var bara draumurinn, að komast í úrslitin í fjölþraut, manni líður vel.”

Jónas, sem er fæddur árið 2002, hefur ekki keppt síðan í febrúar sem gerir árangurinn enn eftirtektarverði, segir á vef Fimleikasambands Íslands. Hægt er að sjá æfingar Jónasar, og viðtal við hann í spilaranum hér að neðan.

„Frábær árangur hjá ótrúlegum íþróttamanni, ef þú elskar það sem þú ert að gera og ert tilbúinn að leggja á þig vinnuna, þá eru þér allir vegir færir,” sagði Róbert Kristmannsson, landsliðsþjálfari Íslands, um árangur Jónasar.