Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Fjórði landsréttardómarinn sækir um á ný

Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Þrjú sóttu um lausa stöðu dómara við Landsrétt sem auglýst var í síðasta mánuði. Þau eru Jón Finnbjörnsson landsréttardómari og héraðsdómararnir Ragnheiður Snorradóttir og Símon Sigvaldason. Jón var einn þeirra fjögurra umsækjenda um stöðu við Landsrétt sem Sigríður Á. Andersen, þáverandi dómsmálaráðherra, tók fram yfir umsækjendur sem matsnefnd mat hæfari.

Þeir fjórir dómarar, sem Sigríður tók framfyrir matsröð, þurftu að leggja niður störf eftir upphaflegan dóm Mannréttindadómstóls Evrópu um að ólöglega hefði verið staðið að skipun í dóminn. Þrjú hafa þegar verið skipuð á nýjan leik og er Jón Finnbjörnsson sá eini sem ekki hafði sótt um starfið á nýjan leik, fyrr en að að stöðunni sem nú var auglýst laus til umsóknar.

Ásmundur Helgason var fyrstur dómaranna fjögurra til að vera skipaður aftur í Landsrétt, í mars. Staða hans losnaði og hana fyllti annar dómaranna sem Sigríður tók fram yfir aðra umsækjendur sem matnefnd taldi hæfari. Það er Arnfríður Einarsdóttir sem var meðal dómara í málinu sem Landsréttarmálið snerist um fyrir Mannréttindadómstóli Evrópu. Þegar Arnfríður var skipuð losnaði hennar upphaflega staða. Þegar skipað var í hana og aðra stöðu var Ragnheiður Bragadóttir skipuð landsréttardómari öðru sinni, sú þriðja af umdeildu dómurunum fjórum. Það er hennar staða sem Jón sækir um núna, sá fjórði og síðasti af dómurunum fjórum sem þurftu að leggja niður störf eftir upphaflega dóm Mannréttindadómstóls Evrópu í málinu.