Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Yfir 400.000 í þörf fyrir brýna neyðaraðstoð

09.12.2020 - 03:25
epa08853970 People affected by storms Eta and Iota in La Guadalupe, Honduras, 30 November 2020.  EPA-EFE/German Reyes ACOMPAÑA CRÓNICA HONDURAS HURACANES
 Mynd: epa
Yfir 400.000 manns í Hondúras og Gvatemala eru í brýnni þörf fyrir neyðaraðstoð, samkvæmt Norsku flóttamannahjálpinni, sem rekur hjálparstarf víðsvegar um heiminn. Tveir geipiöflugir fellibyljir, Eta og Iota, gengu yfir löndin í nóvember, urðu á þriðja hundrað manns að bana og skildu eftir sig slóð eyðileggingar.

Í tilkynningu samtakanna segir að nú, tæpum mánuði eftir að fimmta stigs bylurinn Iota reið yfir, sé neyðin enn gríðarleg meðal hundraða þúsunda íbúa ríkjanna tveggja. Yfir 140.000 heimili eyðilögðust í hamförunum og um 330.000 manns í Hondúras eru enn einangruð frá umheiminum, þar sem bæði vegir og samskiptakerfi eru enn í molum. Erfiðlega hefur gengið að koma hjálpargögnum á þessi svæði.

„Ástandið er algjörlega skelfilegt,“ segir í fréttatilkynningu Dominiku Arseniuk, svæðisstjóra Norsku flóttamannahjálparinnar fyrir Mið-Ameríku. „Heilu samfélögin eru sambandslaus við umheiminn vegna flóða og skriðufalla. Hundruð þúsunda manna hafa enn enga aðstoð fengið og þúsundir sofa á götum úti og undir brúm.“

Ríflega 5 milljónir búa við mikla fátækt

Yfir 5 milljónir íbúa Hondúras, Gvatemala og El Salvador þurftu á neyðaraðstoð að halda áður en Eta og Iota dundu yfir, samkvæmt Samræmingarskrifstofu mannúðarmála hjá Sameinuðu þjóðunum, en hamfarirnar auka enn á neyð þeirra sem verst eru stödd.

Bágindi fólks í þessum heimshluta eru helst rekin til viðvarandi örbirgðar, ofbeldisverka glæpagengja og afleiðinga loftslagsbreytinga. Síðasta misserið og ríflega það hefur svo kórónaveirufaraldurinn gert illt verra og fellibyljirnir tveir bættu gráu ofan á svart.