Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Tasmaníudjöfullinn lýsir í myrkri

07.12.2020 - 16:52
Erlent · Náttúra · Ástralía · Bandarikin · Dýr
Mynd með færslu
 Mynd: Dýragarðurinn í Toledo
Starfsfólk dýragarðsins í Toledo í Ohio-ríki í Bandaríkjunum hefur uppgötvað að Tasmaníudjöfullinn, lítið pokadýr sem eins og nafnið gefur til kynna á heimkynni sín á eyjunni Tasmaníu suður af Ástralíu, er sjálflýsandi. Hann er nú eitt af fáum spendýrum sem vitað er til að svo hátti til um.

Fyrir fáeinum vikum komust vísindamenn að því að breiðnefur, annað ástralskt pokadýr, lýsir í myrkri, og síðan hefur komið í ljós að sama máli gegnir um suma vamba og pokakanínur svokallaðar. Og nú hefur Tasmaníudjöfullinn, sem er líka kallaður pokaskolli á íslensku, bæst í hópinn. Prótein í dýrunum drekkur í sig útfjólublátt ljós og stafar því svo aftur frá sér á sýnilegu formi.

Þetta þykir býsna merkilegt af því að hingað til hefur þetta fyrst og fremst þekkst í alls kyns sjávardýrum, einhverjum skriðdýrum og plöntum, fiðrildum, köngulóm og fjaðurham páfagauka – en fram til þessa ekki í neinum spendýrum.

Hér að neðan má sjá mynd af Tasmaníudjöfli, eða pokaskolla, í dagsbirtu:

Mynd með færslu
 Mynd: Wikimedia Commons
stigurh's picture
Stígur Helgason
Fréttastofa RÚV