Mynd: Veðurstofa Íslands - Kort

Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.
Jarðskjálfti 2,7 að stærð – yfir 21.000 skjálftar
07.12.2020 - 13:32
Jarðskjálfti af stærðinni 2,7 mældist skammt frá Gjögurtá skömmu fyrir klukkan 12 á hádegi. Gjögurtá er á Tjörnesbrotabeltinu þar sem á þriðja tug þúsunda skjálfta hafa mælst síðan í júní.
Stærstu skjálftarnir urðu á fyrstu dögum hrinunnar og mældust þeir yfir 5 að stærð.
Tjörnesbrotabeltið er annað tveggja þverbrotabelta hér á landi og tengir suðurenda Kolbeinseyjarhryggjar við Norðurgosbeltið. Skjálftinn í morgun varð klukkan 11:53, 13,7 kílómetra vest-norðvestur af Gjögurtá.
Að sögn Elísabetar Pálmadóttur, náttúruvársérfræðings á Veðurstofu Íslands, hafa engar tilkynningar hafa borist um að skjálftinn hafi fundist í byggðum.
Hrinan hófst 19. júní og Elísabet segir að þetta sé með lengri jarðskjálftahrinum sem vitað sé um. „Fjöldi skjálfta í þessari hrinu er kominn yfir 21.000 og við á Veðurstofu höfum farið yfir um 10.800 skjálfta.“