
Trump kveðst enn sannfærður um sigur
Trump hélt fjölmennan útifund í Georgíu-ríki í gær þar sem hann staðhæfði að sigurinn væri hans og að niðurstöðurnar væru fals eitt og hjóm. Eftir því var tekið að nánast enginn nema öryggisverðir forsetans báru grímur fyrir vitum sér. Jafnframt voru reglur um fjarlægðartakmarkanir virtar að vettugi.
Fundurinn var haldinn til stuðnings tveggja frambjóðenda Repúblikanaflokksins sem sækjast eftir sæti í öldungadeild Bandaríkjaþings. Aukakosningar verða háðar 5. janúar næstkomandi þar sem viðbúið er að ráðist hvor flokkana hafi meirihluta í deildinni.
„Það er undir íbúum Georgíu komið hvort börnin þeirra alist upp í sósíalistaríki eða frjálsu ríki,“ sagði Trump. Það væri þeirra ákvörðun hvaða stjórnmálaflokkur réði öllum nefndum, semdi lög landsins og réði hvað yrði um peninga skattgreiðenda.
Georgía hefur verið eitt af höfuðvígjum Repúblikanaflokksins en Biden fékk 12 þúsund fleiri atkvæði en Trump í kosningunum nú. Seinast höfðu Demókratar sigur í ríkinu þegar Bill Clinton hlaut meirihluta atkvæða.