Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Bretadrottning ekki í forgangi við bólusetningu

epa05910832 The Queen, Elizabeth II (L) and Philip, The Duke of Edinburgh (R) leave the Easter Service at St George's Chapel in Windsor, Britain, 16 April 2017.  EPA/FACUNDO ARRIZABALAGA
 Mynd: EPA
Nokkrar vikur eru í að Elísabet II Bretlandsdrottning og Filipus eiginmaður hennar fái bóluefni Pfizer og BioNTech. Þau eru bæði á tíræðisaldri og því í forgangshópi en þurfa samt að bíða eftir því að röðin komi að þeim.

Leyfi fékkst fyrir notkun bóluefnisins í Bretlandi í liðinni viku en forgangur að því byggir á aldri og hversu berskjaldað fólk er fyrir veirunni. Roskið fólk á dvalarheimilum og starfsmenn heimilanna verða fyrst til að fá bóluefnið.

Því næst er röðin komin að fólki sem komið er yfir áttrætt og framlínuheilbrigðisstarfsfólki. Að sögn blaðsins Mail on Sunday hyggjast konungshjónin tilkynna opinberlega þegar þeim hefur verið gefið bóluefnið. Með því vilji þau hvetja alla til að láta bólusetja sig.

Fleira breskt frægðarfólk hefur lýst því opinberlega yfir að það ætli að þiggja bólusetningu. Til dæmis hafa Michael Palin úr Monty Python-hópnum og Bob Geldof gefið þess háttar yfirlýsingar.

Bretar hafa pantað 40 milljónir skammta af bóluefni Pfizer og BioNTech en fyrstu 800 þúsund skammtarnir eru væntanlegir. Efnið er framleitt í verksmiðju Pfizer í Belgíu þannig að nú er unnið að því að komast hjá vandkvæðum við afhendingu þess eftir að Bretland yfirgefur Evrópusambandið um áramót.

Breska blaðið The Observer hefur eftir starfsmanni heilbrigðseftirlitsins breska að ríkisstjórnin hafi á prjónunum að nota herflugvélar við flutning efnsins komi til vandkvæða vegna útgöngunnar. „Við gerum það verði þess þörf," segir starfsmaðurinn.