Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

95 handteknir og 67 lögreglumenn særðir

06.12.2020 - 11:37
epaselect epa08864944 Firefighters are preparing to extinguish a fire as several cars burn during a protest against France's controversial global security law, during a protest in a street between Porte des Lilas and Gambetta square, in Paris, France, 05 December 2020. The global security legislation passed by the French Parliament aims to ban the distribution of photos in which police officers and gendarmes can be identified in a way which is harmful to their image  EPA-EFE/Mohammed Badra
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Lögreglan í Frakklandi tók 95 manns höndum, þar af tvo undir lögaldri, vegna mótmæla víða um landið gegn nýjum öryggislögum. Mestu átökin voru í París en þar særðust 48 lögreglumenn. Alls þurftu 67 lögreglumenn á aðhlynningu að halda eftir gærdaginn.

Frá þessu greinir franski innanríkisráðherrann Gerard Darmanin á Twitter og lýsir yfir fullum stuðningi við aðgerðir lögreglu sem beitti meðal annars táragasi og öflugum vatnsdælum.

Auk þess særðist slökkviliðsmaður í höfuðborginni eftir að hann varð fyrir kasthlut. Bensínsprengju var kastað í einn lögreglumann í borginni Nantes í austurhluta landsins. Kveikt var í bílum og verslunum í París en að sögn lögreglu tóku um fimm þúsund manns þátt í mótmælunum þar. Heimildarmaður innan raða lögreglunnar sem AFP-fréttastofan ræddi við kennir nokkur hundruð manna hópi um átökin í París.

Þetta er önnur helgin í röð þar sem mótmælt er nýjum öryggislögum sem takmarka meðal annars mjög upptökur af lögreglufólki við störf sín. Baráttufólk fyrir fjölmiðlafrelsi og mannréttindasamtök segja lögin gera erfiðara um vik að draga lögreglumenn til ábyrgðar fyrir brot í starfi. Nokkrir lögreglumenn náðust í síðasta mánuði á upptöku ganga í skrokk á svörtum manni og beita hann kynþáttaníði.

Þetta vakti mikla reiði í landinu og hefur Emmanuel Macron forseti viðurkennt að ofbeldismenn sé að finna innan raða lögreglu. Draga verði þá til ábyrgðar fyrir brot í starfi. Lögreglumennirnir sem beittu manninn ofbeldi hafa verið ákærðir fyrir atvikið.