Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Skattleggja auðuga vegna COVID-19

05.12.2020 - 15:49
epa08420342 The Argentine Senate holds the first virtual session in its history, led by the President of that chamber and Vice President of the country, Cristina Fernandez de Kirchner (C), in Buenos Aires, Argentina, 13 May 2020.  EPA-EFE/Juan Ignacio Roncoroni
 Mynd: EPA
Argentísk stjórnvöld hafa samþykkt að hækka skatta á auðugustu borgara landsins til að standa straum af kostnaði við kaup á sjúkragögnum og neyðaraðstoð vegna kórónuveirufaraldursins. Alls hefur um ein og hálf milljón íbúa landsins smitast af sjúkdómnum og um fjörutíu þúsund látið lífið.

Skatturinn leggst á þá er eiga eignir sem metnar eru á 200 milljónir pesóa eða meira, sem jafngildir rúmlega þrjú hundruð milljónum króna. Talið er að um tólf þúsund Argentínumenn þurfi að greiða skattinn. 

Um er að ræða 3,5 prósenta fjármagnstekjuskatt á eignir innanlands og allt að því 5,25% á eignir utan landsteinanna. Að sögn AFP-fréttastofunnar munu 20% skattfés renna til kaupa á sjúkragögnum, 20% til aðstoðar við lítil og meðalstór fyrirtæki, 20% til námsstyrkja og þau 25 prósent sem eftir standa til gasvinnslu.

Ríkisstjórn Alberto Fernandez forseta vonast til að afla ríkinu um 300 milljónum pesóa, rúmlega 460 milljörðum króna, með skattinum. Sumir úr röðum stjórnarandstæðinga telja að skatturinn muni erlendir fjárfestar veigra sér við að fjárfesta í Argentínu og lýst honum sem „eignaupptöku“.