Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Sérfræðingar furða sig á opnum börum í Kaupmannahöfn

05.12.2020 - 21:30
Mynd með færslu
 Mynd: Wikimedia Commons - Wikipedia
Ef ráða á niðurlögum kórónuveirufaraldursins í Kaupmannahöfn verður að loka öldurhúsum. Þetta er samdóma álit sérfræðinga sem danska ríkisútvarpið DR ræddi við.

Í gær greindi Magnus Heunicke heilbrigðisráðherra Danmerkur frá því að höfuðborgarsvæðið hefði verið fært upp á fjórða stig viðvörunarkerfis sem komið var á þegar faraldurinn braust út í vor. Þetta er í fyrsta sinn sem nokkuð svæði landsins er fært á þetta stig sem er það næst hæsta. Þessari tilkynningu fylgdu hins vegar ekki hertar sóttvarnaraðgerðir sem sérfróðir viðmælendur DR telja undarlegt.

Sem stendur verða barir í borginni að loka dyrum sínum klukkan tíu að kvöldi. Allan Randrup Thomsen sérfræðingur í tilraunaveirufræði við háskólann í Kaupmannahöfn segir ljóst að þessar takmarkanir gangi of skammt. Ekki hafi tekist að stemma stigu við útbreiðslu COVID-19 í borginni með þessum hætti.

Mun grípa til hertra aðgerða ef svo ber undir

Jan Pravsgaard prófessor í ónæmisfræði smitsjúkdóma við sama skóla segir ekki útilokað að þessar aðgerðir hafi skilað einhverju í baráttunni við kórónuveiruna en ekki sé þó óvitlaust að loka börum og sjá hvort það hjálpi til. Hann segir sérstakt að hækka Kaupmannahöfn á fjórða stig þegar því fylgi ekki hertar takmarkanir og veltir fyrir sér hver tilgangurinn sé þá með þeim aðgerðum.

Heilbrigðisráðherrann hefur sagt að hann muni ekki hika við að grípa til harðari aðgerða ef hann meti slíkt nauðsynlegt. Flemming Konradsen prófessor í alþjóðaheilbrigðismálum við Kaupmannarhafnarháskóla segist hafa gert ráð fyrir því að tilkynningu ráðherrans fylgdu auknar takmarkanir á næturlífi borgarinnar. Slíkt hefði hann gert í sömu stöðu.