
Kosningar í Kúveit í skugga kórónuveirufaraldurs
Sérstakir kjörstaðir hafa verið settir upp fyrir fólk sem smitað er af COVID-19 en lítið verður um hefðbundin hátíðahöld í tilefni kosninganna. Öllum er skylt að bera grímur fyrir vitum sér og algengt er að mæla líkamshita fólks á almannafæri.
Þeim smituðu er almennt gert að halda sig í einangrun heima við og að bera sérstök úlnliðsbönd sem greina hverja hreyfingu. Stjórnvöld hafa þó séð til þess COVID-sjúklingar hafi að einum kjörstað að gangi í hverju fimm kjördæma landsins. Starfsfólk á þeim kjörstöðum verður klætt í sérstaka hlífðarbúninga.
Stjórnmálalíf í Kúveit er harla líflegt, ólíkt því sem gerist í öðrum ríkjum við Persaflóann. Það varð fyrst ríkja á þeim slóðum til að koma upp löggjafarþingi árið 1962 og konur fengu kosningarétt og kjörgengi árið 2005. Kosið er til þings á fjögurra ára festi en stjórnmálaflokkar eru hvorki bannaðir né sérstaklega leyfðir.
Kosningabaráttan hefur að mestu farið fram á samfélagsmiðlum og í fjölmiðlum að þessu sinni en ekki er búist við miklum umskiptum á þinginu að yfirstöðnum kosningum.
Talið er líklegt að kosningaþátttaka verði með minna móti vegna faraldursins en þær eru hinar fyrstu eftir að nýr emír tók við völdum í landinu í september. Yfir 567 þúsund eru á kjörskrá og 326 í framboði, þar á meðal 29 konur.
Frambjóðendur hafa á stefnuskrá sinni að berjast gegn spillingu og fjölga störfum fyrir ungt fólk. Jafnframt telja þeir nauðsyn á að auka málfrelsi, gera umbætur í húsnæðismálum og menntun ásamt því að bæta stöðu ríkisfangslauss minnihlutans í landinu.