Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Stuðningsmenn Trumps leita til Hæstaréttar

epa08860101 US President Donald J. Trump makes remarks about the election after presenting the Medal of Freedom to Lou Holtz, in the Oval Office at the White House, in Washington, DC, USA, 03 December 2020.  EPA-EFE/Doug Mills / POOL
 Mynd: EPA-EFE - The New York Times POOL
Nokkrir stuðningsmenn Donalds Trump Bandaríkjaforseta fara þess á leit við Hæstarétt Bandaríkjanna að hann fresti því að kosningaúrslit í Pennsylvaníu verði endanlega staðfest.

Krafa stuðningsmannanna kemur í kjölfar þess að Hæstiréttur Pennsylvaníu-ríkis hafnaði kröfu lögfræðingateymis Trump um ógildingu póstatkvæða í ríkinu á laugardag.

Stuðningsmennirnir, þeirra á meðal Mike Kelly fulltrúadeildarþingmaður, fara þess á leit að Hæstiréttur gefi út fyrirmæli svo hægt verð að stöðva staðfestingu á niðurstöðum forsetakosninganna, meðan þeir ráða ráðum sínum. Tom Wolfe ríkisstjóri í Pennsylvaníu staðfesti kjör Joe Bidens og Kamölu Harris með formlegum hætti 24. nóvember síðastliðinn.

Búist er við að dómarar Hæstaréttar komist fljótt að niðurstöðu en þeim ber ekki skylda til að rökstyðja hana, hver sem hún verður. Talið er ólíklegt að dómararnir vilji hafa afskipti af málinu, sem myndi þó ekki breyta því að Biden er með meirihluta kjörmanna.

Donald Trump, stuðningsmenn og lögfræðingateymi hafa barist af hörku fyrir því að fá niðurstöðum kosninganna hnekkt í einstaka kjördæmum eða heilu ríkjunum en án árangurs.

Trump sagðist skömmu eftir kosningar vera tilbúinn að bera niðurstöður þeirra undir Hæstarétt, en þrír íhaldsamir dómarar voru skipaðir þangað á forsetatíð hans.

Bill Barr, dómsmálaráðherra og náinn samstarfsmaður Trumps, lýsti því yfir í vikunni að engin merki væri um kosningasvindl og því væri ekki hægt að ógilda sigur Bidens.

Mörgum er enn í minni þegar Hæstiréttur Bandaríkjanna stöðvaði endurtalningu atkvæða í Florída árið 2000. Þá hafði George W. Bush 537 atkvæða meirihluta á Al Gore, sem tryggði honum forsetaembættið. Miklu meiru munar á atkvæðafjölda frambjóðendanna tveggja í kosningunum nú.