Mynd: EPA-EFE - EPA

Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.
Palestínskur unglingur skotinn til bana á Vesturbakka
04.12.2020 - 23:37
Þrettán ára palestínskur unglingur var skotinn til bana í þorpinu Mughayir norður af Ramallah á vesturbakkanum í dag. Ali Ayman Nasr Abu Aliya varð fyrir byssukúlum ísraelskra hermanna meðan á mótmælum gegn landnámi Ísraela stóð.
Hann var fluttur á sjúkrahús í Ramallah þar sem hann lést af sárum sínum. Nickolay Mladenov sendifulltrúi Sameinuðu þjóðanna í Miðausturlöndum skrifaði á Twitter að hann hryllti við því sem gerst hefði og að Ísraelsstjórn bæri skylda til að rannsaka málið.
Frá palestínska utanríkisráðuneytinu barst yfirlýsing um að það hyggðist kæra Ísraela til Alþjóðaglæpadómstólsins. Fjórir aðrir særðust í mótmælunum.
Talsmaður ísraelska hersins segir mótmælendur hafa kastað steinum að öryggissveitum og kveikt hafi verið í dekkjum sem hafi ógnað öryggi almennings.
Yfir 2,8 milljónir Palestínumanna búa á Vesturbakkanum auk 450 þúsund Ísraela en Ísrael hernam svæðið árið 1967.