Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Ófærð víða um land

04.12.2020 - 07:17
Mynd með færslu
 Mynd: Landsbjörg
Vetrarfærð er á landinu og margir vegir eru ýmist lokaðir eða ófærir á Vesturlandi, Vestfjörðum, Norðurlandi og Austurlandi vegna veðursins síðustu daga. Verið er að kanna ástand vega og vonast til að sem flestir opnist með morgninum. Súðavíkurhlíð var ófær í gærkvöldi og í nótt eftir að snjóflóð féll þar í gærkvöldi en hefur nú verið opnuð. Holtavörðuheiði var opnuð nú rétt eftir klukkan sjö.

Á vef Vegagerðarinnar kemur fram að meðal þeirra vega sem nú eru ófærir eða lokaðir eru Brattabrekka, Þröskuldar og Klettsháls. Þá er Víkurskarð lokað sem og Siglufjarðarvegur um Almenninga. Vegirnir um Vopnafjarðarheiði og Fjarðarheiði eru lokaðir og einnig vegurinn um Öxi.

Fólk er hvatt til að fylgjast vel með fréttum um ástand vega á vef Vegagerðarinnar og á samfélagsmiðlum.