Kjarnhiti hlýjar í kaldasta frostinu

Mynd:  / 

Kjarnhiti hlýjar í kaldasta frostinu

04.12.2020 - 10:36

Höfundar

„Ég hef svolítið leyft árinu að speglast í verkunum og unnið út frá þessum skrýtnu tímum,“ segir listamaðurinn Fritz Hendrik IV um sýninguna Kjarnhiti.

Málverk, módel, húsgögn og þrívíddarprent eru meðal þeirra miðla sem Fritz notast við á sýningunni. Hún opnaði nýverið í verkefnarýminu Harbinger á Freyjugötu og stendur til 1. janúar. „Ég hef unnið að þessari sýningu í rúmt ár. Ég byrjaði á að vinna módel sem er fyrir miðju rýmisins, hús sem er ekki haldið við. Innvols eða innbú hússins er munaðarfullt og fínt, allt tipp topp, en húsið sjálft er í mjög vondu ásigkomulagi. Mér fannst þetta vera lýsandi fyrir þann raunveruleika sem við lifum á þar sem við horfum fram á tækniframfarir og aukin lífsgæði á sama tíma og vistkerfið er á undanhaldi,“ segir Fritz. 

Mannkyn kom á óvart

Verkin hafa tekið á sig aukna merkingu í takt við breytta heimsmynd. „Þegar ég byrjaði á þessu verki var það alfarið um umhverfismál. Svo geysaði kórónuveirufaraldurinn og þá fannst mér ansi gaman að sjá hvað mannkynið gat nú samt tekið sig saman um að takast á við svona stór mál og gert það með skipulegum hætti. Auðvitað myndi maður vilja sjá það gert þegar kemur að hlýnun jarðar og súrnun sjávar og öllum þessu stóru málum sem manni hefur ekki fundist einhvern veginn það sama gilda um,“ segir Fritz. 

Stór gluggi

Sýningarinnar njóta gestir gegnum glugga, rýmið er upplýst og verkum stillt upp með gangandi vegfarendur í huga. „Það er eiginlega best að koma í kvöldgöngutúr hérna í hverfið. Ekki er hægt að ganga yfir þröskuldinn á sýningarrýminu en mér finnst það ekki koma að sök, þetta er lítið rými með stórum glugga,“ segir Fritz. 

Spá í teninga

Teningar koma fyrir í nokkrum verkanna, þar á meðal stafrænu verki sem sýningargestir ræsa fram með QR kóða á síma. „Teningar eru svolítið áhugavert fyrirbæri, þeir hafa fylgt mannkyni frá forn-Egyptum og margir slíkir fundist í fornleifauppgröftrum. Þeir voru víst mikið notaðir í að spá fyrir um framtíðina og á sýningunni velti ég svolítið fyrir mér framtíðarsýn fólks. Mér finnst svolítið áhugavert að kasta upp á og setja mikið vægi í heppni eða vona það besta. Teningur er líka bara fallegt form í sjálfu sér.“

Sýningin stendur sem fyrr segir til 1. janúar. Nánari upplýsingar má finna hér