Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Kaupa og hreinsa upp rústir við Bræðraborgarstíg

04.12.2020 - 17:55
Mynd með færslu
 Mynd: Þór Ægisson - RÚV
Þorpið vistfélag hefur fengið samþykkt kauptilboð í brunarústir við Bræðraborgarstíg og hyggst hefja hreinsun og uppbyggingarstarf sem fyrst. Uppbyggingin gæti kostað hátt í milljarð.

Bruninn á Bræðraborgarstíg í Vesturbænum í sumar líður borgarbúum líklega seint úr minni. Þrennt lést í brunanum og hefur húsið staðið svona síðan. 

Ætla að hefja hreinsunarstarf sem fyrst

Þorpið vistfélag hefur nú fengið samþykkt kauptilboð í húsið og Bræðraborgarstíg þrjú sem stendur við hliðina á því. „Kaupverðið er trúnaðarmál en ræðst að einhverju leyti við samning við tryggingafélagið, sem standa yfir og við vonumst til þess að loka þessu máli á næstu viku eða tveimur, þannig nú geti hafist hreinsun og uppbyggingarstarf,“ segir Runólfur Ágústsson, verkefnisstjóri hjá Þorpinu vistfélagi.

Byggingafulltrúi Reykjavíkurborgar hefur sagt húsið hættulegt og að það gæti fokið í næstu lægð. Deilur milli eigenda og tryggingafélags hafa komið í veg fyrir það. „Kauptilboðið var samþykkt í eignirnar eins og þær eru, þannig það er okkar að hreinsa hér og við munum ganga í það sem allra fyrst.“

Endurbyggja húsin fyrir eldri konur

Þorpið vistfélag stefnir á að byggja nýtt hús á brunareitnum í L-laga formi á götuhorni Bræðraborgarstígs og Vesturgötu. Þá segir Runólfur að stefnt sé að því að endurbyggja Bræðraborgarstíg þrjú í upprunalegri mynd. Reykjavíkurborg hefur fengið kynningu á þessum áformum.

Þorpið vistfélag stendur fyrir hagkvæmu húsnæði fyrir ungt fólk í Gufunesi. Húsreitirnir á Bræðraborgarstíg eiga að hýsa eldri konur, sem kjósa að búa einar, en vilja eiga kost á félagsskapnum í svokölluðu „Baba Yaga-systrahúsi“ sem er þekkt þjóðsagnapersóna í Austur-Evrópu. Hún er einskonar norn svo á íslensku gæti húsið verið nefnt Nornahús eða systrahús, þar sem félagar geta varið efri árunum umkringdar konum með sömu lífsgildi; feminísma, sjálfbærni og samstöðu.

26 litlar íbúðir með garði

Stefnt er að því að byggja um 26 íbúðareiningar í húsunum. „Við erum hér að gera ráð fyrir því að reisa klasa af litlum íbúðum, með mikilli sameign, það þarf að raða því hér í kringum garðinn inn í þessa viðkvæmu götumynd en þetta er verkefni upp á 6 til 900 milljónir.“ Félagið hefur þar til í byrjun næsta árs til að fjármagna verkefnið, en Runólfur segir það ganga vel. 

holmfridurdf's picture
Hólmfríður Dagný Friðjónsdóttir
Fréttastofa RÚV