Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

„Fátækt er fyrst og fremst valdaleysi“

Mynd: RÚV / RÚV
„Fátækt er fyrst og fremst valdaleysi. Ekki skorturinn á peningum heldur valdaleysi. Þú ert svo valdalaus í þínu lífi. Og samfélagið ýtir þér út í horn,” segir Ásta Þórdís Skjalddal Guðjónsdóttir sem starfar fyrir Pepp, samtök fólks um fátækt.

„Þér finnst ekki vera þátttökurými fyrir þig í samfélaginu. Um leið og samfélagið í heild viðurkennir þennan hóp sem hluta af samfélaginu og gefur því þetta rými, þá kemur hann. Virkni skiptir svo miklu máli og það er það sem við erum að gera í Peppinu,“ segir Ásta var gestur Viktoríu Hermannsdóttur í þættinum Segðu mér á Rás 1. 
Ásta þekkir fátækt af eigin reynslu og starfar nú við að berjast gegn fátækt. Ásta ólst upp hjá móður sinni sem var hreyfihömluð eftir slys og svo ömmu sinni og afa sem bjuggu fyrir vestan.

Upplifði sig ekki jafnfætis

„Það var þessi tilfinning alltaf gangvart jafnöldrum mínum að maður stæði þeim ekki jafnfætis, maður ætti asnaleg föt. Mamma saumaði á mig fötin og svona til að reyna spara. Það var þetta viðhorf að maður fann að maður var ekki alveg á sama „leveli“ og hinir,” segir Ásta. Móðir hennar varð öryrki eftir slys. „Hún hefur verið á örorkulífeyri alla sína ævi. Hún reyndi lengi vel að vinna með og þá var henni refsað fyrir það með skerðingum. Ég man eftir því að hún fékk einu sinni bréf frá Tryggingastofnun um að fyrst hún gæti reynt að vinna eitthvað þá þyrfti hún ekkert á bótunum að halda. Samt er hún með varanlega lömun,” segir Ásta. Margir séu í sömu sporum, kerfið sé letjandi fyrir fólk í þessari stöðu og haldi því þannig í fátæktargildru.

Sterk upplifun

Ásta segir að þótt henni hafi ekki fundist hún standa jafnfætis skólafélögum sínum hafi hún seinna komist að því að þeir litu ekki svo á.  
„Ég er búin að tala um þetta við þá sem voru samtíða mér á þessum tíma en þau upplifðu þetta ekki svona. En þetta var mín upplifun og þetta var mjög sterk upplifun. Og ég finn þetta þegar ég er að ræða við þá sem koma til okkar, þá finn ég þetta sama. Þeim finnst þau ekki koma að borðinu á sama stað og jafnaldrarnir, fólkið sem þau eru í kringum. Finna þegar þau koma inn á heimili hjá félögum sínum að þá er allt annað atlæti, allt annað viðhorf heldur en þau alast upp með. Þetta hefur áhrif á börn.”

Vildi ekki vera fjárhagsleg byrði

Þegar unglingsárin tóku við flosnaði Ásta upp úr skóla vegna þess að hún hafði ekki fjárhagslegan stuðning. „Ég fékk þessa tilfinningu á unglingsárunum. Ég ætlaði ekki að vera fjárhagsleg byrði á mömmu minni, ætlaði ekki að fara hanga í skóla og gera ekki neitt. Ég held að þetta sé mjög sterk tilfinning hjá mjög mörgum börnum sem koma úr fátækt. Þetta eru svo háir og miklir þröskuldar og þau bera þessar áhyggjur. Þau vilja ekki valda foreldrum sínum óþarfa byrði, því þau finna hvað þetta er erfitt.”

Hætti að fara úr húsi

Ásta varð síðar einstæð móðir með mjög veikt barn. Það tók tvö ár að fá greiningu á sjúkdómi barnsins og þegar greiningin kom hrundi Ásta. Hún hafði keyrt sig í þrot og var á endanum greind með sjálfsofnæmissjúkdóm. Við tók erfiður tími. 
„Ég einangraðist félagslega, á tímabili var ég hætt að fara út úr húsi. Lífið var svo erfitt og mér leið svo illa, bæði félagslega og fjárhagslega. Þetta voru 2-3 ár sem ég fór helst ekki neitt nema bara að koma barninu í skóla og svo undir sæng aftur. Þegar ég horfi til baka og hugsa: hvað varstu að gera undir sænginni? Jú, ég var að bíða eftir því að eitthvað breyttist. Þegar ég kæmi undan henni næst þá væri lífið orðið betra, auðveldra að ráða við. Ég var bara að bíða eftir að lífið yrði betra.” Hún segir að margt hafi breyst þegar hún breytti hugsunarhætti sínum þó að fleira hafi spilað inn í. 

„Það var einhver sem spurði mig; hvað ætlar þú að gera í þessu? Þá fór ég að hætta að leita að svörunum annars staðar og fór meira að spá í það: Já, heyrðu. Kannski get ég gert eitthvað. Og það er alveg ný hugsun þegar þú ert bara alin upp við að þú getur ekkert og þú ert ekkert. Þá er alveg ný hugsun að fara spá í að kannski sé bara eitthvað sem ég get gert í þessu. Smám saman þegar maður breytir hugsunarhætti breytir maður lífinu í kringum sig,” segir Ásta. Í dag nýtir hún reynslu sína til að vinna gegn fátækt og hjálpa fólki í þeirri stöðu sem hún var einu sinni í. 

Það á enginn að skammast sín fyrir fátækt

Hjá Pepp, samtökum gegn fátækt, hefur verið rekin kaffistofa þar sem allir eru velkomnir, hvort sem þeir glíma við fátækt eða ekki. Kaffistofan er í Mjódd en vegna aðstæðna í samfélaginu hefur hún ekki verið opin með eðlilegum hætti um tíma. Vanalega er boðið upp á kaffi og bakkelsi auk þess sem einu sinni í viku er þar kvöldmatur. 

Í faraldrinum hafa verið settar matarkörfur fyrir utan kaffistofuna. Í þeim eru ýmis matvæli sem eru að renna út á tíma og fólki er frjálst að taka með sér til að sporna gegn matarsóun. ,,Við gerum það þannig að það þarf enginn að sanna eitt né neitt, við erum að sporna gegn matarsóun og það mega allir fá sér af þessu. Þannig erum við búin að taka ,,stigmað“ af því að ef þú ferð í körfurnar og færð þér eitthvað þá sértu fátækur. Af því það eru bara allir að því, af hverju ættir þú ekki að kíkja á það?" 

Ásta telur að fátækt fólk sé stimplað og það þurfi að eyða skömminni í kringum fátækt þó að vissulega hafi umræðan breyst á undanförnum árum.  „Þarna erum við búin að skila fólki aðeins aftur reisninni og erum ekki að henda matnum. Það skiptir okkur miklu máli. Við erum samt ekki hjálparstarf, þetta er bara eitthvað sem við erum að gera tímabundið þar sem við getum ekki haft opið." Samtökin hafa líka veitt fólki stuðning með ýmsum hætti en fyrst og fremst eru þetta staður þar sem fólk getur komið saman og rofið félagslega einangrun sem oft fylgir fátækt.

Viktoría Hermannsdóttir ræddi við Ástu Þórdísi í Segðu mér á Rás 1.Hér er hægt að hlýða á allan þáttinn í spilara RÚV.