Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Dómsmálaráðherra Dana í ólgusjó

04.12.2020 - 08:02
Mynd: DR-Danmarks Radio / Danmarks Radio
Nick Hækkerup, dómsmálaráðherra Danmerkur, sætir mikilli gagnrýni vegna þess að lögreglan var látin hringja í minkabændur til að fyrirskipa þeim að lóga öllum minkum þó að lagaheimild skorti. 

Mistök á mistök ofan

Fregnir af mistökum og klúðri danskra stjórnvalda í minkamálinu virðast engan endi ætla að taka. Nick Hækkerup, dómsmálaráðherra, þurfti að svara þingnefnd í gær hver hefði lagt blessun sína yfir leiðbeiningar til lögreglumanna sem höfðu samband við minkabændur.

Segist ekki bera ábyrgð

Þó að yfirmönnum lögreglunnar væri ljóst að lagaheimild skorti kváðu leiðbeiningarnar á um að lögreglumenn skyldu fyrirskipa bændum að lóga öllum minkum, hvort sem smit væri á bænum eða ekki. Hækkerup sagði að hvorki hann né dómsmálaráðuneytið bæru ábyrgð.

Lögreglan fullvissuð um að lögum yrði breytt

Í tilkynningu frá embætti Ríkislögreglustjóra segir að embættið hefði verið fullvissað um að lögunum yrði snarlega breytt. Hækkerup var spurður í þingnefndinni um hver hefði sagt ríkislögreglustjóra þetta. 
Þessu gat dómsmálaráðherrann ekki svarað.

Stjórnarandstaðan segir Hækkerup ekki axla ábyrgð

Stjórnarandstaðan sakar hann um að neita að axla ábyrgð en skella skuldinni á lögregluna. Nick Hækkerup þarf að koma aftur fyrir þingnefndina, minkamálið hefur þegar kostað Mogens Jensen embætti landbúnaðarráðherra, og stjórnarandstaðan saumar efalítið aftur hart að Hækkerup. Einn þingmanna stjórnarandstöðunnar sagði mörgum spurningum enn ósvarað. Annar sagði að lögreglunni væri ætlað að framfylgja lögum og lögreglumenn brytu lögin hver ætti þá að grípa í taumana?

Heilbrigðisráðherra fær ávítur

Ljóst er að Magnus Heunicke, heilbrigðisráðherra, verður ávíttur af þinginu fyrir seinagang við að veita upplýsingar um minkamálið. Fréttaskýrendur telja þó ekki líklegt að Hækkerup þurfi að segja af sér né að ríkisstjórnin falli vegna málsins. Stuðningsflokkar stjórnarinnar vilji ekki rjúfa þing og efna til nýrra kosninga. Minkabændur segjast láta sér í léttu rúmi liggja pólitískar afleiðingar, þeir vilji bætur vegna þess gríðarlega tjóns sem þeir hafi orðið fyrir.