Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Brexit viðræður á lokametrum en þó langt í land

epa08190292 British Prime Minister Boris Johnson gestures as he delivers a speech on 'Unleashing Britain's Potential' at the Old Royal Naval College in London, Britain, 03 February 2020.  The United Kingdom officially left the EU on 31 January 2020, beginning an eleven month transition period with negotiations over a future trade deal.  EPA-EFE/Jason Alden / POOL
 Mynd: EPA
Sendimenn Evrópusambandsins segjast hafa veitt allar mögulegar tilslakanir í samningaviðræðum við Breta. Úr herbúðum Breta berast heitstrengingar um lagasetningu sem gæti grafið undan trausti sambandsins í garð þeirra.

Michel Barnier, aðalsamningamaður Evrópusambandsins, hefur verið í Lundúnum um sex daga skeið. Þeir David Frost, aðalsamningamaður Breta, hafa unnið hörðum höndum að gerð viðskiptasamnings sem unnt væri að fullgilda á næstu vikum.

Í yfirlýsingu kemur fram að nokkuð sé enn í land en þó séu viðræðurnar á lokametrunum. Fulltrúar Evrópusambandsins með Frakka og Hollendinga í broddi fylkingar eru uggandi yfir að Barnier samþykki of miklar tilslakanir.

AFP fréttastofan greinir frá því að samningamenn Evrópusambandsins hafi komið með nýja þætti inn í viðræðurnar. Haft er eftir fulltrúa bresku ríkisstjórnarinnar að straumhvörf gætu verið í vændum en með hverjum deginum dragi úr líkunum á því.

Samningaviðræðum verður fram haldið á morgun, fimmtudag og efalaust á föstudag líka samkvæmt upplýsingum sem AFP hefur úr innsta hring viðræðnanna.

Í yfirlýsingu frá Boris Johnson forsætisráðherra segir að allt kapp verði lagt á að tryggja viðskiptasamning við Evrópusambandið. Á hinn bóginn verður frumvarp lagt fyrir breska þingið í næstu viku um viðskptatilhögun landsins.

Johnson viðurkennir að einhver ákvæði frumvarpsins brjóti í bága við samkomulag um brotthvarf Breta sem hann undirritaði sjálfur. Verði þeim ákvæðum haldið til streitu hafa embættismenn sambandsins varað við að útilokað verði að staðfesta samning við Breta.