
Brexit viðræður á lokametrum en þó langt í land
Michel Barnier, aðalsamningamaður Evrópusambandsins, hefur verið í Lundúnum um sex daga skeið. Þeir David Frost, aðalsamningamaður Breta, hafa unnið hörðum höndum að gerð viðskiptasamnings sem unnt væri að fullgilda á næstu vikum.
Í yfirlýsingu kemur fram að nokkuð sé enn í land en þó séu viðræðurnar á lokametrunum. Fulltrúar Evrópusambandsins með Frakka og Hollendinga í broddi fylkingar eru uggandi yfir að Barnier samþykki of miklar tilslakanir.
AFP fréttastofan greinir frá því að samningamenn Evrópusambandsins hafi komið með nýja þætti inn í viðræðurnar. Haft er eftir fulltrúa bresku ríkisstjórnarinnar að straumhvörf gætu verið í vændum en með hverjum deginum dragi úr líkunum á því.
Samningaviðræðum verður fram haldið á morgun, fimmtudag og efalaust á föstudag líka samkvæmt upplýsingum sem AFP hefur úr innsta hring viðræðnanna.
Í yfirlýsingu frá Boris Johnson forsætisráðherra segir að allt kapp verði lagt á að tryggja viðskiptasamning við Evrópusambandið. Á hinn bóginn verður frumvarp lagt fyrir breska þingið í næstu viku um viðskptatilhögun landsins.
Johnson viðurkennir að einhver ákvæði frumvarpsins brjóti í bága við samkomulag um brotthvarf Breta sem hann undirritaði sjálfur. Verði þeim ákvæðum haldið til streitu hafa embættismenn sambandsins varað við að útilokað verði að staðfesta samning við Breta.