Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Allir helstu fjallvegir orðnir færir

04.12.2020 - 14:55
Mynd með færslu
 Mynd: Halla Ólafsdóttir - RÚV
Tekist hefur að opna alla helstu fjallvegi landsins. Það tekur að lægja fyrir norðan síðdegis en verður hvasst fyrir austan fram á kvöld. Á morgun herðir frostið og spáir allt að 20 stiga frosti inn til landsins á Norðurlandi.

Það er enn hvasst víða á landinu, skafrenningur á vegum og sums staðar hætta á sandfoki. Snjómokstur hefur gengið vel og nú hefur tekist að opna allar helstu leiðir.

Ófærðin enn mest á Austurlandi

Enn er þó ófært norður Strandir, Víkurskarð er lokað og vegurinn um Hólasand. Á Austurlandi er ófært um Hellisheiði og Vatnsskarð og einng á Breiðdalsheiði og Öxi. Enn er hvasst sunnan Vatnajökuls og víða hætta á sandfoki þar. Þá er mjög hvasst á Kjalarnesi og slær upp undir 30 metra á sekúndu í hviðum.

Veðrið á að ganga niður í kvöld

Páll Ágúst Þórarinsson, veðurfræðingur á Veðurstofunni, segir að veðrið gangi niður í dag og í kvöld verði bæði minni vindur og úrkoma. „Ætli það verði ekki orðið gott í nótt og við tökum þá eftir því í fyrramálið þegar úrkoman verður mestmegnis öll farin og það léttir til á landinu. En þá kólnar á móti en lægir og það hefur verið kalt síðustu daga, kalt með vindinum, en það lægir en herðir þá frostið þannig að það verður kalt áfram.“

Lægir síðast á Austurlandi

Hann segir að eftir kvöldmat verði almennilega vart við að það verði farið að lægja og í fyrramálið verði staðan orðin allt önnur. „Það kannski skánar hvað hraðast núna á Norður- og Norðausturlandi, en austanvert landið fær að finna fyrir þessu svolítið áfram.“