Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Segir stjórnarliða ekki skilja stöðu afreksíþróttamanna

Þingmaður Samfylkingar. Myndin frá janúar 2018.
 Mynd: RÚV - Freyr Arnarson

Segir stjórnarliða ekki skilja stöðu afreksíþróttamanna

03.12.2020 - 11:56
Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, segir að svo virðist sem stjórnarliðar og sóttvarnayfirvöld átti sig ekki á muninum á æfingum atvinnumanna og afreksíþróttamanna og svo „áhuga joggara“. Hún furðar sig á því að í öðrum löndum skuli æfingar og leikir fá að fara fram en ekki hér á landi.

Þetta kom fram í ræðu Helgu Völu undir liðnum störf þingsins við upphaf þingfundar í dag.  

Þar gerði hún að umtalsefni yfirlýsingu leikmanna í úrvalsdeild karla og kvenna í körfubolta í gær þar sem þeir óskuðu eftir því að fá að hefja æfingar aftur. Eiginmaður Helgu Völu situr í stjórn körfuknattleiksdeildar Vals og dóttir hennar er leikmaður meistaraflokks kvenna í körfubolta.

Helga Vala benti á að æfingar væru einn mikilvægasti þátturinn hjá afreksíþróttafólki og atvinnumönnum, þær byggi upp þol og þrek og fyrirbyggi meiðsl.  „Það er ekkert grin að berjast við heimsfaraldur en það virðist sem stjórnarliðar átti sig ekki á muninum á afreksíþróttafólki og atvinnumönnum og svo áhugajoggurum í líkamsræktarstöðvum.“

Ef afreks-og atvinnuíþróttamönnum yrði ekki leyft að æfa með góðum fyrirvara fyrir keppnisleiki myndi hættan aukast á að þeir yrðu fyrir alvarlegum meiðslum. Ísland væri nánast eina landið í heiminum þar sem æfingar og keppni afreks-og íþróttamanna væru bannaðar.

Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, svaraði gagnrýni íþróttahreyfingarinnar á upplýsingafundi í dag.  Þar sagði hann að aðgerðir yfirvalda væru ekki bara íþyngjandi fyrir íþróttafólk heldur alla, listamenn, veitingahús og fólk í ferðaþjónustu. Aðgerðirnar væru að skila árangri og Ísland væri nú með eitt lægsta nýgengi sem þekkist í Evrópu.